Birni B. Jónssyni veitt heiðursfélaganafnbót UMFÍ
Birni B. Jónssyni var veitt heiðursfélaganafnbót Ungmennafélags Íslands á 47. sambandsþingi hreyfingarinnar sem haldið er í Hofi á Akureyri um helgina og lýkur í dag. Heiðursfélaganafnbót UMFÍ er æðsta viðurkenningin sem hreyfingin veitir.
Björn, sem er búfræðingur, garðyrkjufræðingur og skógarverkfræðingur að mennt, hefur alla tíð verið áhugasamur um ungmennafélagsmál en hann gekk í Ungmennafélag Biskupstungna 14 ára gamall. Hann varð síðar formaður félagsins og og einnig formaður Héraðssambandsins Skarphéðins um tíma. Árið 1995 var Björn kjörinn í stjórn UMFÍ og tók að sér starf varaformanns og gegndi því starfi í sex ár eða þar til hann var kjörinn formaður hreyfingarinnar 2001 og gegndi starfinu til ársins 2007.