Bíósumarið á Akureyri

Íslendingar hafa lengi verið mikil bíó-þjóð og sést það vel á fjölda fullkominna kvikmyndahúsa, ekki aðeins á höfuðborgarsvæðinu heldur víða um land. Akureyri er hér engin undantekning, í bænum eru tvö gæða kvikmyndahús, Sambíóin reka annað þeirra þar sem áður var Nýja bíó með tveimur sölum sem taka samanlagt upp undir 300 manns í sæti.

Borgarbíó sem rekið er af Senu er sömuleiðis tveggja sala kvikmyndahús með sætaplássi fyrir ríflega 300 manns og er til húsa við Hólabraut. Borgarbíó var stofnað fyrir miðja síðustu öld og er líklega eitt elsta kvikmyndahús landsins.

Í hinum vestræna heimi er sumarið gjarnan mikil vertíð fyrir bíóin og stóru kvikmyndafyrirtækin stíla inn á það að gefa út stórar kvikmyndir á sumrin, svokallaða sumarsmelli.

Nú þegar farið er að síga á seinni hluta sumars hér á Íslandi fór dagskráin.is og kannaði bíómenninguna á Akureyri, þ.e. sumarbíómenninguna.

Jóhann Norðfjörð framkvæmdastjóri Borgarbíós sagði að aðsóknin væri búin að vera frábær hingað til. „Sumarið byrjaði rólega, en hefur sótt verulega í sig veðrið, enda eru að raðast inn stórar og gæðalegar myndir þessar vikurnar,” sagði hann og taldi að þetta sumarið væri á pari við árið í fyrra og bætti við: „Sóknaraldurinn okkar er að hækka jafnt og þétt og færast e.t.v. meira í átt að því sem tíðkast í höfuðborginni.”

Alfreð Ásberg Árnason , framkvæmdarstjóri Sambíóana á Akureyri tók í svipaða strengi. “Aðsóknin er búin að vera ágæt, um 24% meiri en í fyrrasumar,” sagði hann.

“Myndin Finding Dory er langstærsta myndin í sumar, svo er Captain America og Tarzan einnig að gera góða hluti. Myndin Suicide Squad er að byrja og keyrir sumarið enn betur en við vorum með góða aðsókn á miðnætursýningu á henni í fyrrakvöld  á Akureyri,” sagði Alfreð aðspurður um helstu smellina í Sambíó Akureyri í ár.

Í Borgarbíói hafa einnig verið spennandi myndir í sumar. „Núna eru til dæmis tveir risar í Borgarbíói, hasartryllirinn Jason Bourne sem er svo spennandi að það ættu að fylgja fullorðinsbleyjur með hverjum miða, og síðan erum við að sýna teiknimyndina Leynilíf gæludýra sem fjallar um það hvað gæludýrin okkar eru að gera meðan við erum ekki heima. En þar fyrir utan erum við enn að sýna Ísöld, sem hefur gert góða hluti og á leiðinni er síðan gamanmyndir Bad Moms eða Slæmu mæðurnar,   sem er nettur titill,” segir Jóhann og bætir við: „Jason Bourne, og Leynilíf gæludýra eru vafalaust stærstu myndir sumarsins, en í lok sumars  eigum við von á Bridget Jones-myndinni Baby og fljótlega þar á eftir kemur INFERNO með Tom Hanks, í leikstjórn Ron Howard sem einnig gerði Davinci-Code og Engla og djöfla en allt eru þetta myndir byggðar á bókum Dan Brown.”

Að lokum spurði dagskráin.is hvort Akureyringar væru almennt duglegir við að fara í bíó á sumrin.

Alfreð Ásberg, Sambíó Akureyri:

„Akureyringar eru duglegir að koma í bíó og vilja fara í bíó með fjölskyldunni í sumarfríinu.“

Jóhann Norðfjörð, Borgarbíó:

„Þetta ræðst af tvennu: Veðri,- sem hefur verið okkur bíófólki í hag í júlí og hinsvegar úrvali góðra mynda sem einnig hefur verið okkur dýrðlegt undanfarið.”

- epe

 

 

 

 

 

 

 

Nýjast