Allt hefur þetta reynst Stefáni Má og fjölskyldu hans mjög erfitt og því ákvað Bergþóra Pálsdóttir, móðir Grétars Þórs Helgasonar, bekkjarbróður Stefáns Más, að leggja sitt að mörkum til hjálpar fjölskyldunni. Hún réðst í það að safna vinningum og hélt bingó í Síðuskóla nýlega. Húsfyllir var í Síðuskóla og mikil stemmning og rann allur ágóðinn, 420.617.- krónur til fjölskyldu Stefáns Más. Bergþóra kom í heimsókn á dögunum og afhenti fjölskyldunni fjárstyrkinn. Hún sagði að söfnun vinninga og sjálft bingóið hefði gengið einstaklega vel og áætlaði að um 300 manns hefðu komið í Síðuskóla. Bergþóra hefur því ákveðið að endurtaka leikinn og halda annað bingó til styrktar fjölskyldunni, í Síðuskóla föstudaginn 2. október nk. kl. 19.30. Hún vonast jafnframt eftir jafn góðum viðtökum og síðast.
Bára Waag Rúnarsdóttir, móðir Stefáns Más, sagði það hafa verið alveg frábært að finna fyrir þessum stuðningi frá Bergþóru og hennar fjölskyldu og sagði að peningarnir kæmu í góðar þarfir. Hún er jafnframt þakklát öllum þeim sem gáfu vinninga og mættu á bingóið. Bára sagði að búið væri að kaupa sjónvarp í herbergi Stefáns Más en hann er mikill knattspyrnuáhugamaður og harður stuðningsmaður enska liðsins Liverpool. Hún sagði að til stæði að kaupa áskrift að enska boltanum svo sonurinn geti fylgst vel með sínum mönnum.
Kennarafélag Síðuskóla hafði áður stofnað söfnunarreikning fyrir fjölskylduna og er hann enn opinn. Þeir eru margir sem ekki gátu mætt á bingóið en vilja leggja fjölskyldunni lið og getur fólk lagt pening inn á söfnunareikninginn. Reikningsnúmerið er 1145-05-251010 og kennitalan 581192-2079.