Bilun í vél eða stjórntækjum ekki orsökin
Rannsókn á flugslysinu við akstursíþróttasvæðið á Akureyri hefur ekki leitt í ljós bilun í hreyflum eða stjórntækjum vélarinnar. Rannsóknin beinist nú að stjórn vélarinnar í krappri beygju en von er á lokaskýrslu á allra næstu vikum. Þetta kom fyrst fram í fréttum RÚV.
Rannsókn á flugslysinu við Hlíðarfjallsveg ofan við Akureyri 2013 er enn ekki lokið. Skýrslu um slysið hefur nú verið beðið í tæp tvö ár. Ástæða tafarinnar er sögð sú að ákveðið var að klára rannsókn á öðru slysi fyrst.
Flugvél Mýflugs brotlenti við akstursbraut Bílaklúbbs Akureyrar á leið aftur til Akureyrar frá Reykjavík fimmta ágúst 2013. Vélin hafði verið að sinna sjúkraflugi frá Hornafirði til Reykjavíkur. Flugstjóri, flugmaður og sjúkraflutningamaður voru um borð. Flugstjórinn og sjúkraflutningamaðurinn létu lífið en flugmaðurinn slasaðist töluvert.
Þorkell Ágústsson, sem stýrir rannsókninni segir að Rannsóknin hefi ekkert leitt í ljós sem rekja má til bilunar í hreyflum eða stjórnvölum vélarinnar. Hún hefur meðal annars beinst að stjórn vélarinnar í krappri beygju við akstursíþróttasvæðið. Vona er á lokaskýrslu á allra næstu vikum.