N1-deild karla í handknattleik hefst á ný í kvöld eftir langt hlé með heilli umferð. Akureyri tekur á móti HK í Höllinni kl. 19:00 í afar mikilvægum leik fyrir bæði lið í baráttunni í efri hluta deildarinnar. HK hefur 15 stig í þriðja sæti en Akureyri er í fimmta sæti með 14 stig. Ef við ætlum að vera á meðal fjögurra efstu liða í vor að þá verðum að vinna þessa leiki á heimavelli, segir Atli Hilmarsson þjálfari Akureyrar við Vikudag um leikinn í kvöld. Einnig mætast í kvöld Valur og Haukar, FH og Afturelding og Fram og Grótta.
Haukar eru í efsta sæti deildarinnar með 20 stig en FH og HK komu í næstu sætum með 15 stig. Fram og Akureyri hafa 14 stig í fjórða og fimmta sæti og Valur hefur ellefu stig í því sjötta. Afturelding og Grótta sitja í tveimur neðstu sætunum, Afturelding með sex stig en Grótta eitt stig.
Nánar er fjallað um N1-deildina og rætt við Atla Hilmarsson í Vikudegi sem kemur út í dag.