Bolognaferlið miðar að því að skapa evrópskt menntasvæði á háskólastigi til að auðvelda nemendum og kennurum að nema og starfa utan heimalands síns. Framkvæmdastjórn ESB styrkir starf Bolognasérfræðinga í löndum sem eiga aðild að menntaáætlun ESB til að aðstoða þau við að innleiða markmið Bolognaferlisins.
Ráðstefnan á Akureyri er skipulögð af hópi Bolognasérfræðinga í samvinnu við mennta- og menningarmálaráðuneytið. Dagskrá ráðstefnunnar er fjölbreytt en meðal annars verður fjallað um nýtt gæðaráð háskólanna, gæði náms og kennslu á háskólastigi, viðmið um æðri menntun og prófgráður, innleiðingu hæfniviðmiða, vinnuálag nemenda og ECTS einingar. Í lokin verður boðið upp á málstofur þar sem rætt verður um nemendamiðaða kennslu og námsmat. Aðalfyrirlesari á ráðstefnunni verður Norman Sharp, formaður gæðaráðs háskólanna.
Ráðstefnan er ætluð starfsfólki háskólastigsins, stjórnendum og kennurum. Nemendur á háskólastigi eru sérstaklega boðnir velkomnir. Allar nánari upplýsingar má finna á vef Háskólans á Akureyri http://www.unak.is/