Með nýsamþykktu miðbæjarskipulagi Akureyrar var brotið blað í vinnslu skipulagstillögu í bænum. Allir flokkar í bæjarstjórn tóku virkan þátt í vinnunni og hún fór ekki bara fram í skipulagsnefnd heldur komu allir bæjarfulltrúar að verkinu.
Skipulagið er umfangsmikið en mig langar að vekja athygli á nokkrum þáttum þess.
Skátagilið er gróðurperla í miðbænum. Þar er fyrirhuguð breytt og bætt ásýnd með nýjum göngustígum og leiksvæði fyrir börn. Eftir er að vinna nákvæma útfærslu en L-listinn vill hefjast handa sem fyrst og kalla eftir tillögum bæjarbúa í gegnum vefinn betriakureyri.is sem senn verður opnaður. Þegar hafa komið fram hugmyndir um leikkastala og víkingaskip fyrir krakkana. Vilji okkar stendur til að fjármagna framkvæmdir að hluta í gegnum umhverfisátakið í tengslum við 150 ára afmælishátíðina.
Göngugötunni fylgja margvísleg vandamál í núverandi mynd. Allar samgöngur eru erfiðar, hvort sem fólk er gangandi eða akandi og samspil þessara fararmáta ómögulegt. Aldraðir og fólk með vagna á sérstaklega erfitt um vik, akstursleiðin er þröng og bílastæði fá og óhentug. Vanda þarf nánari útfærslu áður en ráðist verður í framkvæmdir. Mikilvægt er að iðandi mannlíf fái notið sín og gangandi verði í fyrirrúmi, án þes að bílaumferð verði útilokuð.
Glerárgatan er sem fleygur á milli miðbæjarins annars vegar og Hofs og hafnarsvæðisins hins vegar. Í drögum að skipulagi sem sett var fram á vormánuðum 2010 var gert ráð fyrir þrengingu á Glerárgötu og var unnið áfram með þá hugmynd. Ætlunin er að skapa meira rými og tengja áðurnefnd svæði saman sem þannig mynda heild. Ákveðið var að hafa eina akrein í hvora átt milli Kaupangsstrætis og Grænugötu, þar sem koma á hringtorg, og lækka hámarkshraða í 40 km/klst. Margt vinnst með því. Umferð um neðsta hluta Oddeyrargötu ætti að minnka og hornið við Sjallann að verða öruggara en það er eitt hættulegasta umferðarhorn bæjarins. Ekki er gert ráð fyrir nýbyggingum í núverandi götustæði og því hægt að breikka götuna á ný ef umferð eykst mikið í framtíðinni.
Nýjar byggingar í miðbænum verða að hámarki fjórar hæðir sem er breyting frá fyrri tillögu. Gert er ráð fyrir verslun og þjónustu á jarðhæðum en íbúðum á efri hæðum. Yfirbyggð bílastæði íbúa verði í portum á milli húsa og einkalóðir ofan á þeim sem íbúar hafa fyrir sig. Strangar kröfur eru gerðar um útlit húsa og byggingarefni. Hugsunin sem býr að baki er að ný hús falli eins vel að núverandi byggingum og mögulegt er þannig að úr verði falleg heild og að miðbærinn verði iða mannlífs þar sem saman koma verslanir, þjónusta og íbúðir. Sama hugmyndafræði var höfð að leiðarljósi við gerð skipulags á Drottningarbrautarreit.
Eins og áður sagði er gert ráð fyrir að bílastæði nýrra húsa verði á lóðum þeirra. Skammtímastæðum verður fjölgað í umferðargötum en langtímastæði verða við Hólabraut, Ráðhús, Strandgötu og Hof. Með bættu aðgengi gangandi að og um miðbæinn tel ég það góða lausn.
Það er mat okkar í L-listanum að vel hafi tekist til með nýja miðbæjarskipulagið. Þar ræður ekki síst hve margir komu að verkinu og hve samvinnan var góð. Sameiginleg sýn allra var að skapa vinalegan miðbæ þar sem eftirsóknarvert yrði að búa, stunda rekstur og sækja þjónustu en ljóst er að núverandi ástand getur ekki varað mikið lengur.
Það kemur í hlut nýrrar bæjarstjórnar að hrinda skipulaginu í framkvæmd en það eitt af forgangsmálum L-listans. Með öflugu samráði við bæjarbúa undir skipulagðri og öruggri verkstjórn getur miðbær Akureyrar orðið besti miðbær á Íslandi. Það er til mikils að vinna.
Eva Reykjalín Elvarsdóttir
Höfundur situr í skipulagsnefnd Akureyrarbæjar og skipar fimmta sæti framboðslista L-listans, bæjarlista Akureyrar.