Besta árið mitt hingað til

Bryndís Rún Hansen með verðlaunin eftir kjörið í gær.
Bryndís Rún Hansen með verðlaunin eftir kjörið í gær.

Sundkonan Bryndís Rún Hansen var á dögunum kjörin íþróttamaður ársins á Akureyri fyrir árið 2011 í hófi sem fram fór á Hótel KEA. Þetta er í þriðja sinn í röð sem Bryndís verður fyrir valinu. Í öðru sæti varð handknattleikskappinn Oddur Gretarsson, leikmaður Akureyrar, og í þriðja sæti Helga Hansdóttir júdókona hjá KA. „Þetta er alveg frábært og æðisleg tilfinning. Mér fannst ég vera búin að vinna inn fyrir því að vera allavega í efstu sætunum,“ sagði Bryndís Rún hógvær við Vikudag eftir valið. Árangur Bryndísar á árinu 2011 var sér sérlega góður. Má þar helst nefna fimm Íslandsmeistaratitla, fimm Íslandsmet og norskan meistaratitil, en Bryndís býr í Noregi þar sem hún keppir fyrir hönd Bergensvømmerne. Hún segir flutninginn út til Noregs hafa skilað sér með góðum árangri í sundlauginni. Um nýliðið ár segir hún árangur sinn á Evrópumeistaramótinu í 25 m laug í Póllandi í desember standa upp úr, en þar setti hún þrjú Íslandsmet, komst í undanúrslit og hafnaði í 13. sæti í 50 m flugsundi. „Það var frábært að toppa á svona stóru móti undir álagi og þetta er án efa mitt besta ár í sundinu hingað til,“ segir hún.
Tveimur sekúndum frá Ólympíulágmarki
Ekki er útilokað að Bryndís vinni sér inn keppnisrétt á Ólympíuleikunum í London í sumar en hún er tveimur sekúndum frá lágmarkinu í 100 m flugsundi. Hún segist hins vegar ekki kappkosta við að ná þessu lágmarki, en helsta markmið hennar er að keppa á Ólympíuleikum í Rio De Janeiro árið 2016. „Ég lít á þetta lágmark fyrir London svona einstaka sinnum. Þetta kemur bara ef það kemur en ég er ekkert að einsetja mér að ná þessu núna,“ segir Bryndís, en er hún bjartsýn á að ná lágmarkinu fyrir sumarið? „Ég myndi segja að það væru svona helmingslíkur.“

Nýjast