Bergvin býður sig fram í starf ritara Samfylkingarinnar
Á Landsfundi Samfylkingarinnar sem haldinn verður dagana 21. til 23. október verður kosin forysta flokksins til næstu tveggja ára. Bergvin Oddsson nemi í stjórnmálafræði, sem einnig rekur bókatúgáfu og er búsettur á Akureyri, hefur ákveðið að bjóða sig fram sem ritari Samfylkingarinnar.
Bergvin hefur sent frá sér eftirfarandi yfirlýsingu: "Að vandlegu athuguðu máli og í ljósi þess að ég hef fengið stuðning frá fjölda flokksfélaga hvaðanæva af landinu hef ég ákveðið að gefa kost á mér sem ritari Samfylkingarinnar. Það er nauðsynlegt að mínu mati að einhver endurnýjun eigi sér stað í flokksforystu Samfylkingarinnar. Ungur landsbyggðarmaður með stórt jafnaðarmannahjarta, sem hefur óbilandi áhuga á stjórnmálum og pólitískan metnað er verðugur fulltrúi í stjórn flokksins, Ég er fæddur 16. apríl árið 1986 í Vestmannaeyjum. Þar sleit ég barnsskónum en fluttist til Reykjavíkur er ég hóf nám í framhaldsskóla en ég lauk stúdentsprófi frá MH. Síðastliðin ár hef ég og fjölskylda mín verið búsett á Akureyri. Um þessar mundir stunda ég BA nám í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands auk þess að reka bókaútgáfu. Sambýliskona mín er Fanný Rósa Bjarnadóttir hjúkrunarfræðingur og eigum við soninn Odd Bjarna 2 ára. Ég hef verið virkur í flokksstarfi Samfylkingarinnar frá Landsfundi haustið 2001. Ég hef verið kjörin í flokkstjórn frá árinu 2005 og var kosin í Framkvæmdarstjórn á Landsfundi 2009. Sem framkvæmdarstjórnarfulltrúi hef ég nýtt hvert tækifæri til að hitta flokksfélagana vítt og breitt um landið, hlustað á skoðanir þeirra og reynt eftir mætti að upplýsa grasrótina um þau áform sem hafa verið uppi hverju sinni í flokksstarfinu. Það er trú mín að Samfylkingunni séu allir vegir færir ef flokksforystan hefur á að skipa fólki með ólíka reynslu, búsetu og aldur. Forystu sem er tilbúin að hlusta á grasrótina og fórna sér fyrir jafnaðarhugsjónina. Ég er til í að leggja mig allan fram og gera mitt til að tengja betur kjörna fulltrúa við grasrótina," segir Bergvin.