Beinu flugi frá Akureyri til London aflýst

Ferðaskrifstofa Akureyrar hefur aflýst ferð sem skrifstofan hafði áætlað með leiguflugi til London þann 3. til 9. nóvember nk. Ragnheiðar Jakobsdóttur, skrifstofustjóri hjá Ferðaskrifstofu Akureyar, sagði ástæðuna vera miklar afpantanir.  

„Tveimur mánuðum fyrir brottför höfðu 110 manns bókað sig en í síðustu viku var svo komið að einungis voru 40 eftir. Vélin tekur 140 manns þannig að augljóslega hefði þetta ekki gengið upp," sagði Ragnheiður. Hún sagði að þeim 40 sem áttu pantað far verði boðið að fljúga í gegnum Reykjavík til London. Ragnheiður segir augljóst að fólk sé farið að halda að sér höndum í kjölfar versnandi efnahagsástands og það komi mest niður á svokölluðum borgarferðum, fólk sleppi þeim en sé aftur á móti frekar tilbúið að halda í þær sólalandaferðir sem það hefur pantað.

Næsta ferð í beinu flugi frá Akureyri á vegum ferðaskrifstofunnar er áætluð í mars nk. til Kaupmannahafnar. Sú ferð  er ekki komin í sölu og er verið að fara yfir það hvort það sé grundvöllur fyrir henni," Ragnheiður.

Nýjast