Beint innanlandsflug milli Keflavíkur og Akureyrar hófst í morgun

Hjördís Þórhallsdóttir flugvallastjóri á Akureyri, Árni Gunnarsson framkvæmdarstjóri Flugfélags Ísla…
Hjördís Þórhallsdóttir flugvallastjóri á Akureyri, Árni Gunnarsson framkvæmdarstjóri Flugfélags Íslands og Eiríkur Björn Björgvinsson bæjarstjóri á Akureyri. Mynd/Þorgeir Baldursson

Beint innanlandsflug Flugfélags Íslands milli Keflavíkur og Akureyrar hófst í morgun en flogið verður allan ársins hring milli þessara áfangastaða. Er það von Flugfélagsins að þetta auðveldi íbúum á Norðurlandi að nýta sér enn frekar millilandaflug til og frá Íslandi og auðveldi að sama skapi erlendum ferðamönnum að komast beint til Norðurlands, er segir í tilkynningu.

 „Við kynntum þessa hugmynd síðasta haust og viðbrögðin viðskiptavina okkar og hvatning Norðlendinga sýndu svo sannarlega að áhuginn er mikill á henni. Þetta auðveldar að sjálfsögðu dreifingu ferðamanna sem koma til landsins og að sama skapi auðveldar allt ferðalag fyrir þá sem eru að koma úr eða fara í millilandaflug,“ segir Árni Gunnarsson, framkvæmdastjóri Flugfélags Íslands.

Flogið verður allt að sex sinnum í viku yfir vetrartímann og að lágmarki tvisvar í viku yfir sumartímann og fyrst um sinn verður þessi þjónusta í boði fyrir þá sem eru á leið í eða úr millilandaflugi í Keflavík og geta því ferðast alla leið frá Akureyri til endanlegs áfangastaðar í Evrópu eða Norður Ameríku og heim aftur.

Farþegar sem fljúga frá Akureyri verða bókaðir í áframhaldandi flug með Icelandair en þeir sem fljúga með öðrum flugfélögum nálgast brottfararspjald sitt á þjónustuborði viðkomandi flugfélags í Keflavík eða með netinnritun, farsímainnritun eða sjálfsafgreiðslu. Farangur farþega er innritaður á Akureyri í áframhaldandi flug frá Keflavík.

„Það var ánægjulegt að fara í þetta fyrsta flug í nótt og ég er þess fullviss að þessi flugleið á eftir að reynast vel og koma þeim fjölda farþega sem ferðast þarna á milli til góða á komandi árum,“ segir Árni.

 

Þorgeir Baldursson var á Akureyrarflugvelli og tók meðfylgjandi myndir.

 

Nýjast