Beint flug frá Akureyri til Ljubljana næsta sumar
Í sumar sem leið bauð Ferðaskrifstofan Nonni upp á beint flug frá Akureyri til Ljubljana höfuðborgar Slóveníu. Boðið var upp á ýmsa ferðamöguleika svo sem gönguferð, Slóvenía/Króatía og til Portoroz strandarinnar. Tókst þetta með afbrigðum vel og sýnir skoðanakönnun sem gerð var á heimleiðinni að ferðalangar komu allir mjög ánægðir heim. Nú á að endurtaka leikinn næsta sumar og hefur verið ákveðið að flogið verði frá Akureyri að morgni 26. júní og heim frá Ljubljana seinni part dags þann 3. júlí.
Verið er að vinna í gerð hinna ýmsu pakka sem boðið verður upp á en það verður með svipuðu sniði og s.l. sumar. Einhver nýjung verður líka með eins og t.d. hjólaferð. Það er von starfsfólks Ferðaskrifstofunnar Nonna að margir Norðlendingar og Austfirðingar hafi áhuga á að nýta sér þetta beina flug til þessa fallega lands.