Beiðni um skýrslu um Vaðlaheiðargöng hafnað

Forsætisnefnd Alþingis hafnaði því á fundi sínum í morgun að óskað yrði eftir því við Hagfræðistofnun Háskóla Íslands að stofnunin gerði skýrslu um arðsemi Vaðlaheiðarganga eins og umhverfis- og samgöngunefnd þingsins hafði óskað eftir í lok nóvember. Umhverfis- og samgöngunefnd óskaði eftir skýrslunni í kjölfar þess að Ríkisendurskoðun hafnaði beiðni um að taka verkið að sér, einkum á þeim forsendum að það væri ekki hlutverk stofnunarinnar.

Í kjölfarið óskaði nefndin eftir því að fá grænt ljós á það frá forsætisnefnd að Hagfræðistofnun yrði fengið til þess að vinna slíka skýrslu. Þetta kemur fram á mbl.is.

Guðfríður Lilja Grétarsdóttir formaður umhverfis- og samgöngunefndar segir á vef RÚV að mörgum spurningum sé ósvarað um verkefnið. Nefndin fjallaði í morgun um Vaðlaheiðargöng. Þar sátu fyrir svörum fulltrúar IFS greiningar, sem gerði nýlega úttekt á verkefninu. Þar voru einnig sérfræðingar frá Hagfræðistofun Háskóla Íslands, sem gerðu skýrslu um málið árið 2010. Loks mætti fyrir nefndina Pálmi Kristinsson verkfræðingur, sem skilaði nýlega sinni eigin úttekt. Andstaða virðist vera í umhverfis- og samgöngunefnd gegn þessu verkefni. Nefndarmenn spurðu ítrekað um grundvallarforsendur á borð við vaxtakostnað og stofnkostnað við gerð ganganna. Þessi yfirreið virtist skila litlu. Guðfríður Lilja Grétarsdóttir, formaður nefndarinnar, sagði eftir fundinn að umfjöllunin hefði vakið fleiri spurningar en hún hefði svarað. Umhverfis- og samgöngunefnd fór í nóvember fram á það við forsætisnefnd Alþingis að Hagfræðistofnun Háskólans gerði nýja úttekt á kostnaði við Vaðlaheiðargöng. Svar forsætisnefndar barst í morgun. Guðfríður Lilja segir að forsætisnefnd hafi svarað því til að ekki væri tilefni til að afgreiða beiðni nefndarinnar. Hún segir að þetta hafi komið nefndarmönnum á óvart. Þeirra mat sé einmitt að það sé brýnt að leggja mat á verkefnið, segir í frétt RÚV.

Nýjast