Beðið gagna í meintu mansalsmáli

Grunur er um vinnumansal á veitingastaðnum Sjanghæ í miðbæ Akureyrar. Mynd/Hörður Geirsson
Grunur er um vinnumansal á veitingastaðnum Sjanghæ í miðbæ Akureyrar. Mynd/Hörður Geirsson
Stéttarfélagið Eining-Iðja bíður nú gagna frá veitingastaðnum Sjanghæ á Akureyri, þar sem grunur er um vinnumansal. Rúv greindi fyrst frá málinu í gær en grunur leikur á að starfsfólkið fái greiddar þrjátíu þúsund krónur á mánuði í laun og borði matarafganga af veitingastaðnum. Starfsmenn stéttarfélagsins Einingar-Iðju ræddu við starfsfólk veitingastaðarins í gærkvöld, með aðstoð túlks.
 

Björn Snæbjörnsson, formaður Einingar-Iðju, segir í samtali við Rúv að félagið hafi óskað eftir gögnum frá veitingastaðnum sem ættu að berast á mánudag. Meira vill Björn ekki segja um málið að svo stöddu.

Á vef Rúv segir að veitingastaðurinn Sjanghæ hafi verið opnaður við Strandgötu á Akureyri í september. Áður en staðurinn var opnaður formlega var fyrsta ábendingin um að ekki væri allt með felldu. Samkvæmt heimildum Rúv er eigandi staðarins, sem er kínversk kona, grunuð um vinnumansal. Fimm kínverskir ríkisborgarar vinna á staðum.

Nýjast