Barist um heimaleikjaréttinn

Þó að sætið í úrslitakeppninni sé tryggt er mikið undir í Höllinni í kvöld er Akureyri fær Val í hei…
Þó að sætið í úrslitakeppninni sé tryggt er mikið undir í Höllinni í kvöld er Akureyri fær Val í heimsókn.

Lokaumferð N1-deildar karla í handknattleik fer fram í kvöld þar sem fjórir leikir eru á dagskrá. Haukar, FH og Akureyri eru örugg með sæti í úrslitakeppninni en HK og Fram mætast í hreinum úrslitaleik um hvort liðið fylgir hinum þremur í fjögurra liða úrslit. Akureyri tekur á móti Val í Höllinni og hefst leikurinn kl. 19:30. Leikurinn er gríðarlega mikilvægur fyrir norðanmenn upp á að ná öðru sæti deildarinnar og tryggja sér þar með heimaleikjaréttinn í undanúrslitunum.

Akureyri er í þriðja sæti deildarinnar með 25 stig og getur endað í öðru til fjórða sæti, allt eftir því hvernig lokaumferðin spilast. FH og Fram eða HK geta einnig endað í öðru til fjórða sæti. Möguleikar Akureyrar í að ná öðru sæti deildarinnar felast fyrst og fremst í því að vinna Val í kvöld og treysta á að FH, sem situr í öðru sætinu, tapi stigi eða stigum gegn deildarmeisturum Hauka í lokaumferðinni.

„Þetta er svakalega mikilvægur leikur gegn Val og við treystum á að fólk fylli Höllina og skapi sömu stemmningu og í síðasta leik,“ segir Sævar Árnason aðstoðarþjálfari Akureyrar. Sú breyting verður á í úrslitakeppninni í ár að vinna þarf þrjá leiki í stað tveggja til þess að komast áfram. „Þannig að það er mjög mikilvægt að vinna heimaleikjaréttinn og fá sem flesta leiki hérna í Höllinni,“ segir Sævar. Sem fyrr segir mætast HK og Fram í úrslitaleik í Digransesu um sæti í úrslitakeppninni. Vikudagur fékk Svævar til spá fyrir um úrslitin í þeim leik.

„Ég segi að Fram sé líklegri en þetta verður svakalegur baráttuleikur.“ Í lokaumferðinni í kvöld mætast einnig Haukar og FH og Afturelding og Grótta.

Nýjast