Baráttan um flugvöll

Guðmundur Baldvin Guðmundsson skrifar

Mikilvægt útspil var lagt fram nú í liðinni viku, í baráttunni um Reykjavíkurflugvöll, þegar 12 þingmenn Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks lögðu fram frumvarp til laga um miðstöð innanlandsflugs.  Markmið laganna er að tryggja tilvist miðstöðvar innanlandsflugs í næsta nágrenni við helstu heilbrigðis-, mennta- og stjórnsýslustofnanir landsins.  Frumvarpið gerir ráð fyrir að miðstöð innanlandsflugs skuli starfrækt á Reykjavíkurflugvelli í Vatnsmýri.  

Frumvarp þetta er mikið fagnaðarefni en ég er hræddur um að það eigi eftir að mæta mikilli andstöðu á Alþingi enda virðist mér sem  allt of stór hluti þingmanna nái ekki að hugsa út fyrir 101. Ekki þarf að fjölyrða um mikilvægi Reykjavíkurflugvallar fyrir landsmenn alla og staðsetningin hans, í næsta nágrenni við Landspítala Háskólasjúkrahús, hefur á liðnum árum bjargað mörgu mannslífinu. 

Einhugur í bæjarstjórn

Við framsóknarfólk á Akureyri lögðum líkt og flest ef ekki öll framboð til bæjarstjórnarkosninga mikla áherslu á baráttu fyrir áframhaldandi staðsetningu  flugvallarins í Vatnsmýri.  Bæjarstjórn var enda einhuga í afstöðu sinni til tillögu, sem lögð var fram eftir umræður í bæjarstjórn 16. nóvember 2010, þar sem bæjarstjóra var falið að láta vinna skýrslu um afleiðingar þess fyrir Akureyri og þá sem nýta sér Akureyrarflugvöll ef Reykjavíkurflugvöllur yrði lagður af í núverandi mynd.  Sérstaklega yrði litið til öryggissjónarmiða sem og efnahagslegara áhrifa við gerð skýrslunnar.  Bæjarstjóra var falið að vinna verkefnið í samráði við bæjarstjórana á Ísafirði, Fljótsdalshéraði og í Vestmannaeyjum vegna hugsanlegar aðkomu þeirra að verkefninu fyrir þeirra bæjarfélög.  Var bæjarstjóra ennfremur falið að upplýsa borgarstjóra um verkefnið.

Sláðu í klárinn Eiríkur

Já umrædd bókun var lögð fram í bæjarstjórn fyrir réttu ári en því miður hefur lítið gerst.   Hins vegar boðaði bæjarstjóri í tölu sinni á bæjarstjórnarfundi s.l. þriðjudag að nú skyldi ráðin bót á og vinna sett í fullan gang. Í mínum huga er og verður baráttan um Reykjavíkurflugvöll í Vatnsmýrinni hörð en mikil andstaða er af hálfu höfuðborgarbúa.  Því er skýrsla sú sem bæjarstjórn fól bæjarstjóra að vinna mikilvægt gagn okkar landsbyggðarfólks í baráttunni og ekki síst til að uppfræða höfuðborgarbúa um mikilvægi flugvallarins.  Því er miður hversu hægt hefur miðað og skora ég á bæjarstjóra að slá nú í klárinn.

Látum í okkur heyra

Í mínum huga er staðsetning Reykjavíkurflugvallar eitt af stóru baráttumálum okkar landsbyggðarmanna og mikilvægt að við látum í okkur heyra.  Ég hef á nýlegum fundum okkar bæjarstjórnarmanna bæði með þingmönnum kjördæmisins svo og fjárlaganefnd lagt mikla áherslu á mikilvægi flugvallarins í Vatnsmýrinni. Það er skylda okkar allra sem stöndum í málsvari fyrir landsbyggðina að láta rödd okkar heyrast sem víðast og leggja fram rök máli okkar til stuðnings.  Hvort  frumvarp það sem ég minntist hér á i upphafi nær í gegn skal ósagt látið en vonandi verður það baráttu okkar til framdráttar og skora ég á alla sem málið varðar að snúa nú bökum saman og tryggja flugvöllinn í Vatnsmýri, landsmönnum öllum til heilla.

Höfundur er bæjarfulltrúi Framsóknarflokks.

 

 

Nýjast