"Fórnarlamb" Baldurs er Hjálmar Freysteinsson læknir. Þetta gerir Baldur í tilefni af útkomu bókar, sem hann segir að sé nokkurs konar ævisaga. Bókin heitir; Töfrum líkast - Saga Baldurs Brjánssonar töframanns, en það er Bókaútgáfan Hólar sem gefur út. Bókina skrifaði Gunnar Kr. Sigurjónsson og í kynningu segir m.a. að leyndardómsfyllsti maður á landinu opni hjarta sitt og láti allt vaða.
Baldur sagðist hafa framkvæmt svona uppskurði á töfrasýningum á Broadway í Reykjavík fyrir mörgum árum. "Ég var plataður í að gera þetta núna í tilefni af útkomu bókarinnar. Maður verður að bara láta sig hafa það og vona það besta." Baldur segir að bókin fjalli m.a. um gömlu dagana á Akureyri, þennan uppskurð og aðdraganda hans fyrir um 30 árum.
"Á þessum tíma voru allir að fara til Filipseyja til að láta lækna sig og mikið talað þennan undramann þarna úti, sem gat farið inn í mannslíkamann og komið út með allt mögulegt, m.a skemmd líffæri og það án þess að skera. Ég fór að tala um að þetta væru bara töfrabrögð og var í kjölfarið krafinn um að sýna fram á það. Ég átti ekki von á að þurfa að standa við að hafa sagt þetta en okkur tókst hins vegar vel upp við aðgerðina," sagði Baldur.
Viðburðurinn er þáttur í jólabókahátíð bókaútgáfunnar Hóla, en auk Baldurs ætla Hjálmar Freysteinsson og Davíð Hjálmar Haraldsson að lesa uppúr nýútkomnum bókum sínum, Heitum lummum Freysteins og Þriðju Davíðsbók Davíðs.