Bágborin staða atvinnumála í Hrísey

„Því miður er staðan í atvinnumálum hér ekki góð það verður að segjast eins og er," segir Kristinn Árnason formaður hverfisráðs Hríseyjar.  Norðurskel varð gjaldþrota nýlega en þarf störfuðu 5 manns, hausaþurrkun var lokað um síðustu áramót þar sem þrjú störf voru í boði og þá má nefna að Einangrunarstöð Svínaræktarfélags Íslands í eynni var einnig lokað seint á síðasta ári.  

„Við getum ekki leyft okkur annað en að vera bjartsýn og vona að úr rætist.  Vitanlega má hugsa sér að fólk myndi sækja vinnu í landi, en það hefði í för með sér að þjónusta minnkaði enn meira en þegar er og þá þykir manni skelfilegt til þess að hugsa að heilsársbúseta hér legðist af. Við erum því  á fullu við að skoða ýmsar hugmyndir sem fram hafa komið varðandi uppbyggingu í atvinnumálum," segir Kristinn.  Þá segir hann að menn voni í lengstu lög að hægt verði að endurreisa starfsemi Norðurskeljar í eynni.

Meðal hugmynda sem Hríseyingar velta fyrir sér er hvort hægt er að nýta húsnæði í Hlein sem tímabundna vistun fyrir fatlaða á ársgrundvelli, en undanfarin sumur verið slík starfsemi, sumarbúðir fyrir fatlaða verið í Hafnarvík á vegum einkaaðila. „Menn eru líka að skoða hvort hægt er að gera eitthvað meira úr hvönninni, en eins og staðan er nú er hún  týnd hér, þurrkuð, möluð og pökkuð en síðan send til frekari vinnslu í landi," segir Kristinn.  Atvinnumálafulltri Akureyrarbæjar, Sævar Pétursson mun sækja Hrísey heim á næstunni og ræða stöðuna.

Kristinn  bendir á að byggðalag eins og Hrísey standi þó og falli með stöðu kvótamála. Í hlut þess nú komu 102 tonn af byggðakvóta, en Kristinn segir að það yrði mikil lyftistöng ef samfélagið fengi um 100 tonn til viðbótar.  Ein fiskverkun er á staðnum, Hvammur og er það stærsti vinnustaðurinn í eynni.  Nýlega var farið að verka þar harðfisk, sem er viðbót við aðra framleiðslu.  „Með því að fá dálítið meiri kvóta til viðbótar því sem fékkst með byggðarkvótanum gætum við verið í góðum málum. Þá yrði hægt að auka starfsemi á vegum Hvamms og fleira fólk fengi vinnu," segir Kristinn.

Nýjast