Bætt aðstaða og fjölþættari þjónusta hjá Hringrás

Hringrás hefur stórbætt aðstöðu sína við Ægisnes á Akureyri.
Hringrás hefur stórbætt aðstöðu sína við Ægisnes á Akureyri.

Endurvinnsluyrirtækið Hringrás hefur rekið brotajárnsmóttöku á Akureyri, fyrir Norðurland eystra, til fjölda ára. Hringrás hefur að undanförnu stórbætt aðstöðu sína við Ægisnes og þar er nú boðið upp á fjölþættari og betri þjónustu en áður. Hringrás getur nú tekið á móti spilliefnum, timbri, plasti, garðaúrgangi, raftækjum, góðmálmum og eins áður hjólbörðum og og brotamálmum.

Með þessu er fyrirtækið að auka þjónustustigið á Akureyri og Norðausturlandi. Einar Ásgeirsson framkvæmdastjóri Hringrásar segist ánægður með þær móttökur sem fyrirtækið hefur fengið alla tíð frá Eyfirðingum. Athafnasvæði Hringrásar var upphaflega við Slippinn en flutti svo á núverandi svæði við Ægisnes. "Við gerðum samning við Sorpeyðingu Eyjafjarðar á sínum og gerðum jafnframt langtímasamning um núverandi lóð og höfum lagt mikið í hana. Við höfum reist hér 300 fermetra einangraða skemmu, komið upp aðstöðu til móttöku á spilliefnum og flokkunar á málmum, eins til að geta hugsað betur um tækin okkar og veitt betri þjónustu. Á svæðinu höfum við malbikuð og steypt plön sem tengd eru við olíuskiljukerfi, við erum því umhverfisvænir og leggjum okkur fram um það að hafa hér snyrtilegt. Myndarlegar manir hafa verið gerðar kringum svæðið, þannig að hér er gott að vera og þá er alltaf gott veður á Akureyri," segir Einar.

Hann segir að tekið sé á móti timbri, garðaúrgangi og skyldum úrgangi, sem malað er niður og fer kurlið í moltugerðina hjá Moltu í Eyjafjarðarsveit. "Einnig erum við að klippa og pressa brotajárn og hér er verið að endurvinna hráefni til útflutnings. Þannig getum við veitt viðskiptavinum okkar sem besta þjónustu, lágmarkað umhverfisáhrif, skapað atvinnu og haft jákvæð áhrif fyrir samfélagið. Og við leggjum okkar fram um þjónusta okkar viðkiptavini vel," segir Einar.

Á Akureyri eru 4-5 starfsmenn og segir Einar að þeim eigi frekar eftir að fjölga í framtíðinni. Hringrás er með fjórar starfsstöðvar á landsbyggðinni, á Akureyri, Skagaströnd, Reyðarfirði og Reykjanesbæ og svo eru höfuðstöðvarnar í Reykjavík. Tækjabúnaðurinn er færanlegur og þannig næst ákveðin samnýting á milli starfsstöðvanna.

Nýjast