Bæta þarf flutningsmöguleika í raforkukerfinu til Akureyrar

Franz Árnason fyrrverandi forstjóri Norðurorku hf. fyrir framan höfuðstöðvar fyrirtækisins á Rangárv…
Franz Árnason fyrrverandi forstjóri Norðurorku hf. fyrir framan höfuðstöðvar fyrirtækisins á Rangárvöllum.

Franz Árnason fyrrverandi forstjóri Norðurorku hf. segir að flutningsmöguleikarnir í raforkukerfinu til Akureyrar séu fullnýttir og að nauðsynlegt sé að bæta þar úr. “Hingað í Eyjafjörðinn er ekki hægt að flytja mikið meira rafmagn en notað er í dag og ef t.d. Becromal á að stækka, þarf að efla aðflutningslínur Landsnets til Eyjafjarðar.”

“Það er á döfinni en það eru alls kyns tafir á því vegna þess að það er eins og menn megi ekki sjá rafmagnslínur í dag. Fyrir 50 árum urðu allir glaðir á bændabýlum landsins þegar menn sáu staurana rísa. Í dag má ekkert og menn heimta allar lagnir í jörð sem er óraunhæft og allt of dýrt. Þetta er það sem hamlar því að hægt sé að byggja frekar upp orkufrekan iðnað hér á Akureyri,” segir Franz.

“Það er verið að flytja allt það rafmagn sem hægt er til Akureyrar, bæði að austan og vestan og því þarf auðvitað að styrkja línurnar í báðar áttir. Það þarf að vera varamöguleiki ef eitthvað kemur uppá. Svo virðist sem einhverjir í Skagafirði vilji ekki leyfa lagningu Blöndulínu til Akureyrar og svo verður að segjast eins og er að bæjaryfirvöld á Akureyri eru tvístígandi varðandi það hvað eigi að leyfa. En það er aðkallandi að bæta þarna úr, ekki síst þar sem uppi eru hugmyndir um stækkun hjá Becromal, hvenær sem það svo verður,” segir Franz ennfremur. Ítarlegt viðtal er við hann í Vikudegi sem kom út í gær, fimmtudag.

Nýjast