Bændur í Eyjafirði huga að seinni slætti
Ólafur segir að víðast hvar í Eyjafirði sé uppskera vel í meðallagi og á einstöku svæðum, einkum frammi í firði, sé hún mjög góð. „Á ákveðnum svæðum voru miklir þurrkar og þar er uppskera eðlilega minni af þeim sökum og eins er nokkuð misjafnt á þeim svæðum þar sem kal var mest á liðnu vori hversu mikil uppskeran er, en almennt má segja að það rættist mun betur úr en menn þorðu að vona eftir kuldatíð í vor og byrjun sumars," segir Ólafur.
Hann segir að bændur á kalsvæðum hafi verið duglegir að endurvinna tún sín og sá grænfóðri og nú síðustu daga hafi spretta tekið vel við sér, „og víða er uppskeran bara nokkuð góð," segir hann. Þá nefnir hann að bændur hafi tekið tún á leigu í auknum mæli enda sé talsvert framboð af slíku, víða hafi búskap verið hætt og tún ekki nýtt. Allt hafi þetta hjálpað til og útlit fyrir að nægt framboð verði af heyi, þó á einstaka bæjum sé uppskera með minna móti.
Víða í Eyjafirði eru bændur nú í seinni slætti eða um það bil að hefja hann, beðið er eftir þurrki og sum staðar meiri sprettu áður en hafist er handa.
Hvað kartöflur varðar telur Ólafur að uppskera verði með minna móti í haust. Verð tíð hagstæðari nú seinni hluta ágústmánaðar og í byrjun september geti hins vegar orðið þar breyting á, en nánast þurfi þó kraftaverk til. „Maður hefur séð það gerast að góð tíð á þessum árstíma hefur gert kraftaverk fyrir kartöfluuppskeru, en hvað verður nú er auðvitað ómögulegt að segja fyrir um strax," segir Ólafur.