Bæjaryfirvöld gerðu enga kröfu um tímasetningar eða starfslok
Halla Björk Reynisdóttir formaður stjórnar Akureyrarstofu og fulltrúi stjórnar í nefnd sem sett var á laggirnar til að fara yfir málefni Leikfélags Akureyrar segir í tilefni af uppsögn Maríu Sigurðardóttur úr starfi leikhússtjóra í vikunni, að í nýgerðum samningi Akureyrarbæjar og LA komi fram að stjórn LA skuli meta ábyrgð leikhússtjóra með hliðsjón af lögum félagsins.
Til að taka af öll tvímæli þá gerðu bæjaryfirvöld enga kröfu umfram þetta, hvorki um tímasetningar eða starfslok. Ákvarðanir um starfslok leikhússtjóra eru því eðli málsins samkvæmt á ábyrgð stjórnar LA, segir hún. Halla Björk segir að framundan sé spennandi hugmyndavinna um hvaða fyrirkomulag menn vilji hafa á rekstri atvinnuleikhúss á Akureyri og stjórn Akureyrarstofu hafi skipað tvo fulltrúa í þá vinnu og stjórn LA tvo. Eins og sagan sýnir þá hefur rekstur metnaðarfulls leikhúss á Akureyri gengið vel á löngum köflum og verkefnið framundan að búa leikhúsinu umhverfi sem festir öruggan rekstur og spennandi leiklist í sessi, segir Halla Björk.
Búið var að semja um starfslok
Sigrún Björk Jakobsdóttirformaður stjórnar Leikfélags Akureyrar segir að uppsagnir séu alltaf erfiðar og að hún hafi fullan skilning á afstöðu Maríu, en stjórnin hafi talið réttast í stöðunni og þar sem um veigamikið starf sé að ræða að uppsögnin taki gildi strax. Búið hafi verið að semja um starfslok leikhússtjóra og þegar svo er þjóni það ekki endilega hagsmunum leikfélagsins að unnið sé út uppsagnarfrest. Leikfélagið fái þarna tækifæri til að vinna sig út úr þeim vanda sem það sé í með nýju fólki við stjórnvölinn.
Ég tek undir það að mikilvægt er að horfa til framtíðar, við getum lært af því sem gerðist, og þurfum nú að fara vandlega yfir hvernig starfsemi og rekstri leikfélagsins er best borgið til framtíðar litið, segir Sigrún Björk.
Hún segir að vinnuhópur sé nýtekinn til starfa og að hann eigi eftir mikið verk. Auglýst verður eftir verkefnisstjóra til 6 mánaða fljótlega og þegar niðurstöður vinnuhópsins liggja fyrir vonast ég eftir því að LA geti auglýst eftir öflugum leikhússtjóra sem vinni með stjórn að bættum hag félagsins.