Bæjarstjórn lýsir yfir vilja til að koma að aukningu hlutfjár í Vaðlaheiðargöngum

Bæjarstjórn Akureyrar samþykkti samhljóða á fundi sínum í dag bókun, þar sem fram kemur að bæjarstjórn leggi áherslu á að framkvæmdir við Vaðlaheiðargöng hefjist hið fyrsta. Gerð ganganna sé mikilvæg samgöngubót fyrir alla þá sem ferðast um Norðurland, auki umferðaröryggi og efli atvinnulíf. Ennfremur segir í bókuninni: “Bæjarstjórn minnir á að aðrar samgöngubætur á samgönguáætlun munu ekki líða fyrir framkvæmd Vaðlaheiðarganga né heldur önnur brýn verkefni, t.d. í heilbrigðisþjónustu, þar sem framkvæmdin verður fjármögnuð með veggjöldum ganganna. Jafnframt vill bæjarstjórn benda á að ríkissjóður fær um þrjá milljarða í beinar tekjur af framkvæmdinni á framkvæmdatíma ganganna.

Í skýrslu IFS Greiningar sem unnin var fyrir fjármálaráðuneytið er meginniðurstaðan sú að helstu forsendur um stofnkostnað og rekstur séu innan raunhæfra marka en lagt til að eigið fé félagsins verði aukið. Bæjarstjórn Akureyrar telur eðlilegt að taka tillit til þessara ábendinga og lýsir yfir vilja sínum til að koma að aukningu hlutfjár í samstarfi við aðra hluthafa. Bæjarstjórn skorar jafnframt á Alþingi að ljúka málinu sem fyrst svo hægt verði að hefjast handa við þessa mikilvægu framkvæmd.”


 

Nýjast