Bæjarstjórinn á Akureyri gagnrýnir misskiptingu fjármagns til flugmála

Séð yfir Akureyrarflugvöll. Mynd: Ingimar Eydal
Séð yfir Akureyrarflugvöll. Mynd: Ingimar Eydal

Bæjarstjórinn á Akureyri, og fulltrúi meirihlutans í bæjarstjórn, gagnrýna harðlega að á sama tíma og ISAVIA tilkynnir áform um 20-30 milljarða fjárfestingu á Keflavíkurflugvelli, eru nauðsynlegar endurbætur á flugvöllunum á Akureyri og Egilsstöðum skornar niður. Rúv sagði frá.

„Svo er eigandi ISAVIA, ríkið, ekki tilbúið að klára fjármögnun vegna framkvæmda við flughlaðið á Akureyrarflugvelli sem er bara brot af þessari fjárfestingu,“ skrifar Eiríkur Björn Björgvinsson, bæjarstjóri á Akureyri, í færslu á Facebooksíðu sinni. „Framkvæmdir á Akureyrarflugvelli munu tryggja að við höldum hér fjölda starfa í flugtengdri starfsemi sem annars gætu farið.“

Logi Már Einarsson, meirihlutafulltrúi í bæjarstjórn, er einnig stórorður á Facebook. „Hvers konar hálfvitagangur er það að telja sig ekki hafa nokkur hundruð milljónir til að gera Akureyrar- og Egilsstaðaflugvelli betur búna undir millilandaflug á sama tíma og 30 milljarðar renna nú hljóðlaust til uppbyggingar í Keflavík,“ skrifar hann.

Þeir segja það báðir að mikilvægt sé að fjölga gáttum til Íslands og dreifa ferðamannastaumnum víðar um landið. „Fyrir nú utan þann umhverfissóðaskap, sem því fylgir að hvetja alla erlenda ferðamenn til traðka niður sama blettinn, missum við af dýrmætu tækifæri til þess að efla byggðir sem hafa átt undir högg að sækja,“ skrifar Logi Már. /epe

Nýjast