Bæjarstjóri segir ítrekað hafa verið kallað eftir nýrri þjóðarsátt

Hreinskilin skoðanaskipti og umræður fóru fram á fundi bæjaryfirvalda með stjórnendum deilda bæjarins varðandi þá hugmynd sem varpað var fram á dögunum að starfsmenn Akureyrarbæjar tækju einn launalausan frídag í mánuði á næsta ári í því skyni að lækka launakostnað bæjarins.   

„Þetta var góður fundur.  Við fórum líka yfir fjölmargar aðrar aðgerðir sem stjórnendur hafa farið í í sparnaðarskyni," segir Sigrún Björk.  Hún segir að ábendingum sem komu fram á fundinum verði núna safnað saman og ræddar af bæjarstjórn.  Þriggja ára áætlun var afgreidd á fundi bæjarstjórnar í síðustu viku   og næsta skref er að leggja línur varðandi það hvernig undirbúningi að fjárhagsáætlunargerð fyrir næsta ár verður hagað.

„Það er mikil óvissa í þjóðfélaginu um framtíðina - við vitum ekki hvað ný ríkisstjórn mun boða varðandi skattahækkanir og þar með útsvarshækkun. Allt þarf þetta að spilast saman því að mínu mati gengur ekki upp að lækka launin og hækka skattana jafnframt.  Sveitarfélögin og ríkið þurfa svo sannarlega að vinna saman með aðilum vinnumarkaðarins um hvernig verður hægt að haga hér málum næstu tvö ár. Það er sú aðgerð sem við höfum kallað ítrekað eftir að það verði gerð eins konar þjóðarsátt á ný - annars er þetta einfaldlega ekki hægt," segir Sigrún Björk.

Nýjast