Bæjarstjóri afhenti starfsfólki Ásprents Stíls Brostuverðlaun

Hermann Jón Tómasson bæjarstjóri á Akureyri afhenti starfsfólki Ásprents - Stíls viðurkenningu við setningu Akureyrarvöku í Lystigarðinum á dögunum. Viðurkenningin er veitt fyrir frumkvæði og framkvæmd átaksins "Brostu með hjartanu".  

Átakið stappaði stálinu í Akureyringa og landsmenn alla haustið og veturinn 2008 - 2009. Bryndís Óskarsdóttir hönnunar- og viðskiptastjóri Stíls segir að verkefnið hafi gengið mjög vel og að ótrúlegasta fólk hafi tekið þátt í því. "Við höfum fengið mikla hvatningu um að halda áfram með verkefnið og höfum fullan hug á því. Það eru ýmsar hugmyndir til skoðunar og þá væri líka mjög gaman að fá ábendingar frá fólki."

Bryndis segir að brostuverkefnið hafi teygt anga sína víða, jafnt innanlands sem erlendis. Fólk hafi verið að kaupa kort og límmiða til að senda út um allan heim. Einnig hefur starfsfólk Stíls límt upp stóra miða með hvatningarorðum víðs vegar um bæinn, sem vakið hafa verðskuldaða athygli. Grunnskólabörn á Akureyri hafa einnig komið að verkefninu og sagði Bryndís að þegar skólabörnin voru heimsótt hafi komið vel í ljós í skólunum hversu mjög það hafði spunnið upp á sig þar.

Stíl hefur framleitt kort og límmiða með hjörtum og hefur verið mikið um að hjörtu hafi verið límd inn í brúðarkort, fermingarkort og afmæliskort, svo eitthvað sé nefnt. Ferðafólk hefur verið mjög áhugasamt um verkefnið og það finnst okkur það sýna vel hversu mikla og jákvæða athygli þetta hefur fengið, segir Bryndís.

Nýjast