Bæjarráð styrkir KA og GA vegna kalskemmda á svæðum félaganna

Bæjarráð Akureyrar samþykkti á fundi sínum í morgun að styrkja Knattspyrnufélag Akureyrar um hálfa milljón króna og Golfklúbb Akureyrar um 2 milljónir króna vegna kalskemmda á svæðum félaganna. Áður hafði íþróttaráð lagt til að KA og GA yrði veittur fjárstuðningur vegna kalskemmda. 

KA sótti um styrk að upphæð kr. 950.000 vegna kalskemmda, sem er viðbótarkostnaður vegna þess mikla tjóns sem félagið hefur orðið fyrir. Ekki voru nefndar neinar fjárupphæðir í erindi GA um fjárstuðning vegna kalskemmda á svæði klúbbsins. Í bókun íþróttaráðs segir m.a: "Íþróttaráð telur að þær veðurfarslegu aðstæður sem voru sl. vetur og vor hafi haft veruleg áhrif á þau íþróttafélög sem sjá um rekstur grassvæða í eigu Akureyrarbæjar. Ráðið telur það ljóst að án þeirra aðgerða sem gripið var til af hálfu félaganna hefði hefðbundin starfsemi þeirra raskast verulega með tilheyrandi óþægindum og tekjutapi. Íþróttaráð leggur því mikla áherslu á, að vegna þessara óvæntu og óviðráðanlegu aðstæðna sem upp komu, að Akureyrarbær taki þátt í þeim kostnaði sem til féll vegna viðgerðanna."

Nýjast