Bæjarráð styður tillögur starfshóps um fyrirkomulag flutningsjöfnuðar

Bæjarráð Akureyrar lýsir yfir eindregnum stuðningi við tillögur sem fram kom í skýrslu starfshóps um fyrirkomulag flutningsjöfnuðar og hvetur stjórnvöld til þess að hrinda þeim í framkvæmd við fyrsta tækifæri.  

Málið var til umfjöllunar á fundi bæjarráðs í morgun en á fundi ráðsins í byrjun árs var eftirfarandi bókun samþykkt: "Bæjarráð leggur áherslu á nauðsyn þess að jafna eins og kostur er rekstrarforsendur fyrirtækja í landinu og þar með lífskjör íbúa. Framleiðslufyrirtæki, t.d. matvæla- og drykkjarvörufyrirtæki, þurfa að greiða verulegar upphæðir vegna flutnings á framleiðslu sinni á stærsta markaðssvæði landsins. Þessi kostnaður getur ráðið úrslitum um hagkvæmni þess að reka þessi fyrirtæki hér á Akureyri. Bæjarráð skorar þess vegna á stjórnvöld að taka þetta brýna mál föstum tökum og  koma á flutningsjöfnunarkerfi svo fljótt sem kostur er."

Ljóst er að tillögur starfshópsins eru í góðu samræmi við þessi sjónarmið og bæjarráð lýsir því eindregnum stuðningi við tillögurnar og hvetur stjórnvöld til þess að hrinda þeim í framkvæmd við fyrsta tækifæri.

Nýjast