„Á þessum tímapunkti get ég ekki samþykkt gjaldskrá leikskóla nema að undangenginni könnun á viðhorfi foreldra til þeirra breytinga sem gerðar voru þegar sex tíma dvöl varð gjaldfrjáls,“ segir Sunna Hlín Jóhannesdóttir bæjarfulltrúi B-lista.
Á fundi bæjarráðs var uppfærð gjaldskrá fræðslu- og lýðheilsuráðs lögð fram og samþykkt með þremur greiddum atkvæðum. Sunna og Hilda Jana Gísladóttir S-lista sátu hjá.
Í bókun Sunnu segir að þar til gerð verði könnun á viðhorfi foreldra til breytinganna og hún rýnd til gagns, sé erfitt að leggja heildstætt mat á áhrif áðurnefndra breytinga. Vísaði hún til bókunar sem gerð var í október 2023 af meirihluta í bæjarstjórn þar sem segir að skráningadagar og gjaldfrjálsir tímar séu tilraunaverkefni til eins árs og gerðar verði stöðuskýrslur að liðnum 6 og 12 mánuðum frá upphafi verkefnanna.
Sunna Hlín Jóhannesdóttir Framsóknarflokki
Það verk er óunnið enn þá
„Það er minn skilningur að þegar um tilraunaverkefni er að ræða þá eigi að taka saman og rýna niðurstöður og gera viðeigandi umbætur þegar og ef þess gerist þörf. Það verk er óunnið enn þá,“ segir Sunna í bókun sinni.