Bæjarfulltrúum gert ókleift að gegna skyldum sínum

Meirihluti bæjarráðs Akureyrar samþykkti á fundi ráðsins nýlega, breytingu á fjárhagsáætlunarferlinu, sem felur í sér að starfsáætlanir nefnda verði aðeins lagðar fram til kynningar í bæjarstjórn en ekki til samþykktar. Minnihlutinn greiddi atkvæði á móti. Hermann Jón Tómasson bæjarfulltrúi Samfylkingarinnar segir að með tillögunni sé bæjarfulltrúum í raun gert ókleift að gegna skyldum sínum.  

"Fastanefndir bæjarins starfa í umboði bæjarstjórnar. Þær eru nokkurskonar framlenging á bæjarstjórn og er falið það verkefni að móta stefnu og fylgjast með framkvæmd hennar hver á sínu sviði. Bæjarfulltrúarnir 11 eru kjörnir af íbúum bæjarins til þess að stýra bæjarfélaginu og bera því ábyrgð gagnvart þeim á þeim ákvörðunum sem teknar eru af nefndunum. Bæjarfulltrúarnir verða þess vegna að eiga þess kost að fjalla um og lýsa afstöðu sinni til starfsáætlana nefndanna, ekki bara til fjárhagsramma þeirra. Í raun má segja að L-listinn hafi með samþykkt þessarar tillögu ákveðið að skerða völd og áhrif kjörinna fulltrúa og færa þessi völd í staðinn til nefndarmanna sem ekki voru kjörnir til starfa af íbúunum og voru reyndar margir hverjir alls ekki í framboði. Með tillögunni er bæjarfulltrúum í raun gert ókleift að gegna skyldum sínum. Ég ætla að leyfa mér að trúa því að Oddur Helgi hafi ekki hugsað þessa tillögu sína til enda og mun óska eftir því að málið verði tekið upp að nýju þegar bæjarstjórn kemur saman að loknu sumarleyfi," segir Hermann Jón í viðtali í síðasta tölublaði Vikudags.

Nýjast