Bæjarfélagið leggi metnað sinn við þjónustu atvinnulífsins

Ný atvinnustefna á Akureyri tekur gildi árið 2022.
Ný atvinnustefna á Akureyri tekur gildi árið 2022.

Meirihluti bæjarstjórnar Akureyrar samþykkti nýlega að hefja undirbúning að nýrri atvinnustefnu sem tekur gildi árið 2022. Gildandi atvinnustefna tók gildi árið 2014 og rennur út á næsta ári. Á bæjarstjórnarfundinum þar sem tillagan var samþykkt var rætt um ýmsa þætti sem varða atvinnumál, atvinnutækifæri og íbúaþróun í sveitarfélaginu. 

Í aðdraganda vinnunnar verður gerð samkeppnisgreining á sveitarfélaginu, í samstarfi við SSNE, þar sem lögð verður mikil áhersla á að fá fram sjónarmið atvinnurekenda. Hilda Jana Gísladóttir, oddviti Samfylkingarinnar í bæjarstjórn Akureyrar, segir að bæjaryfirvöld eigi að leggja ríka áherslu á að skapa hagkvæm skilyrði fyrir atvinnulíf og fyrirtæki í bænum.

„Ég tel mikilvægt að einföld, metnaðarfull og skýr atvinnustefna taki við af núgildandi stefnu. Markmið nýrrar atvinnustefnu er að sveitarfélagið skapi eins hagkvæm skilyrði og kostur er fyrir atvinnulíf og fyrirtæki í bænum,“ segir Hilda Jana.

Hilda Jana Gísladóttir.

Horft til sérstöðu Grímseyjar og Hríseyjar

Hún segir nýja atvinnustefnu eigi að vera markviss og skýr og leggja eigi sérstaka áherslu á hlutverk Akureyrarbæjar í því að veita atvinnulífinu framúrskarandi þjónustu og hagstætt umhverfi þar sem það getur vaxið og dafnað.

„Þá verður sérstaklega horft til þess hvernig megi vekja aukinn áhuga á búsetu og rekstri fyrirtækja í sveitarfélaginu og í nýrri atvinnustefnu þarf að horfa sérstaklega til sérstöðu Grímseyjar og Hríseyjar,“ segir Hilda Jana. Þá sé öflugt atvinnulíf grundvöllur öflugs samfélags og því þarf að leggja áherslu á að sveitarfélagið sé samkeppnishæft og að hér geti fyrirtæki blómstrað.

„Ég tel fyrst og fremst mikilvægt að bæjarfélagið leggi metnað sinn í að sinna þjónustu við atvinnulífið með öflugum hætti. Þá tel ég mikilvægt að bæði starfsmenn sveitarfélagsins og kjörnir fulltrúar séu meðvitaðir um hverjar séu þarfir atvinnulífsins á hverjum tíma,“ segir Hilda Jana.

 

 


Athugasemdir

Nýjast