Bæjarbúum boðnir reitir til að rækta matjurtir næsta sumar

"Hugmyndin gengur út á það að nýta land sem er sunnan og vestan við gömlu Gróðararstöðina undir matjurtareiti," segir Hermann Jón Tómasson formaður bæjarráðs en hann hefur kynnt hugmynd um að bjóða bæjarbúum aðgang að matjurtargörðum næsta sumar.  Hugmyndina á Jóhann Thorarenssen garðyrkjumaður hjá Akureyrarbæ en Hermann Jón hefur komið henni á framfæri innan bæjarkerfisins.  

"Málið hefur þegar fengið jákvæða afgreiðslu í framkvæmdaráði og mjög góðar viðtökur hjá þeim bæjarfulltrúum sem fengið hafa kynningu á hugmyndinni og að óbreyttu ættum við að geta auglýst reiti til úthlutunar áður en langt um líður," segir Hermann Jón. Hann segir að nálægð við gróðrarstöðina og þá aðstöðu sem þar er auðveldi alla framkvæmd málsins. Talið er að koma megi fyrir allt að 70 reitum á svæðinu og ef allt gengur upp er ætlunin að gefa íbúum bæjarins færi á að rækta matjurtir þar á komandi sumri. "Á þessu stigi rennum við blint í sjóinn hvað varðar áhuga en ég er þess fullviss að margir gætu hugsað sér að nýta þennan möguleika." 

Nýjast