Axel Flóvent með lag í Grey's

Axel Flóvent er ungur og upprennandi tónlistarmaður. Ljósmynd: Sigga Ella
Axel Flóvent er ungur og upprennandi tónlistarmaður. Ljósmynd: Sigga Ella

Tónlistarmaðurinn ungi Axel Flóvent frá Húsavík hefur átt mikillar velgegni að fagna að undanförnu. Nýjasta afrekið er að lag eftir hann var flutt í hinum vinsæla sjónvarpsþætti Grey‘s Anatomy.Þátturinn var sýndur á fimmtudagskvöldið sl. Í Bandaríkjunum. Þetta var lagið Beach sem kom út á EP plötunni Forest Fires sem kom út í fyrra. Myndband af laginu má skoða hér að neðan.

Axel hefur haft í nógu að snúast, en hann hefur nýlokið nokkurra vikna tónleikaferðalagi um Bandaríkin „Túrinn hefur gengið rosalega vel, það hefur verið fullt alls staðar. Við lögðum af stað um síðustu mánaðamót og keyrðum um 3.700 kílómetra allt í allt. Axel spilaði á SXSW tónlistarhátíðinni í Austin á miðvikudagskvöldið og svo flugum við hingað til Chicago. Við stoppum þó stutt heima því Axel er á leið í stúdíó í Belgíu og ég nýti tímann til að funda með plötufyrirtækinu okkar um framtíðina,“ segir Sindri Ástmarsson, umboðsmaður Axels í samtali við Vísi.

Lagið Beach eftir Axel hefur áður verið notað í sjónvarpsþátt vestan hafs, það var notað í Vampire Diaries í desember sl. „Við vitum af fleiri þáttum en við megum ekki segja frá því að svo stöddu,” segir Sindri við Vísi.

Það verður mikið að gera hjá Axel á þessu ári, m.a. tónlistarmyndbandsgerð með kvikmyndagerðarmönnum frá Sony. Þeir eru væntanlegir til landsins í apríl. Svo mun hann koma fram á tónleikum og tónlistar hátíðum heima og erlendis fram í lok nóvember. Á næstu vikum kemur út nýtt myndband við lagið Sea creatures. EPE

Nýjast