Aukum sjálfræði landsbyggðarinnar

Róbert Hlynur Baldursson skrifar

Miðstýringin sem einkennir samfélagið okkar er áhugaverð. Ég velti því fyrir mér hvort ekki þurfi að fara ofan í saumana á þeirri uppbyggingu. Hvers vegna er málum þannig háttað, að ríkisstjórnin geti tekið ákvörðun um að skera niður fjárveitingar til einstakra sjúkrahúsa á landinu? Jafnvel þannig að tugum prósenta munar á spítölum?

Þegar kjördæmakerfi landsins var dregið upp átti það að tryggja að hvert svæði hefði sinn fulltrúa á þingi. Þetta er ekki ósvipað því kerfi sem var við lýði á þjóðveldisöld þegar hvert hérað hafði sinn goða sem tók síðan sæti á Alþingi. Þetta eru undirstöður vestræns lýðræðis. Fólk sem býður sig fram til setu á landsþingi gerir það í tilteknu kjördæmi og tekur svo sæti sem fulltrúi kjósenda þar.

Þetta er í sjálfu sér gott og gilt. Aftur á móti má velta því fyrir sér hvort útfærsla þessa fyrirkomulags sé skynsamleg hérlendis.

Landshlutastjórnir

Á Íslandi er, ólíkt mörgum öðrum lýðræðisríkjum, ekkert stig á milli sveitastjórna og ríkisstjórnar. Þar eru aðeins sýslur, sem hafa ekkert gildi. Í nokkrum ríkjum er sjálfræði landshluta mikið. Þar þarf aðeins að nefna Þýskaland og Bandaríkin sem dæmi. Í Bandaríkjunum eru fylki stjórnsýslustig milli sveitastjórna og ríkisstjórnar. Talsverður munur getur verið á stjórnarháttum frá einu fylki til annars. Almenna reglan hefur þó verið sú að fylkin beri ábyrgð á því að tryggja borgurunum öryggi, menntun, heilsugæslu og samgöngur.

Er heppilegt að halda stjórnkerfinu óbreyttu á Íslandi? Ég er efins. Ég tel að það þurfi að skoða gaumgæfilega hvort gera eigi landið að einu kjördæmi þegar kosið er til þings, forseta og ríkisstjórnar. Ég vil að kosið verði beint til allra þessara stofnana og að ríkisstjórn verði aðskilin þinginu. Í stað kjördæmanna, vil ég kanna möguleikann á því að setja á fót eins konar landshlutastjórnir. Þær hefðu þeirra eigin skattstofn og gætu ráðstafað fénu eftir þeirra eigin höfði í rekstur staðbundinnar starfsemi, eins og sjúkrahúsa og framhaldsskóla. Þar gætu sveitastjórnarfulltrúar tekið sæti.

Ég tel að þetta fyrirkomulag gæti hentað okkar samfélagi betur. Við þurfum að draga úr miðstýringunni úr Reykjavík. Ég vil berjast fyrir því að þetta verði skoðað verði ég kosinn á stjórnlagaþing þann 27. nóvember.

Ítarleg stefnuskrá á stjornlagathing.org. Kosninganúmer mitt er 7627.

Höfundur er frambjóðandi til stjórnlagaþings.

Nýjast