Loks var skilað um 106 tonnum af sléttum papa og pappír á árinu 2008 samanborið við 61 tonn árið áður. Þetta eru að sögn Gunnars Þórs Garðarssonar hjá Sagaplast - Endurvinnslunni ehf, stærstu sorpflokkarnir sem fyrirtækið tekur við en einnig tekur það á móti ýmsu öðru, t.d. spilliefnum, brotajárni, dekkjum, plasti og ýmsu fleiru. „Alls erum við að taka við endurvinnsluefnum sem vega á milli 4 og 5 þúsund tonn sem gera 200 til 250 fulla 40 feta gáma og fer þetta allt til endurvinnslu," sagði Gunnar.
Hann segir talsverðar viðhorfsbreytingar hafa átt sér stað hjá fyrirtækjum og sveitarfélögum upp á síðkastið og er tíminn frá því að efnahagslægðin hófst þar sérstaklega áberandi. „Hjá fyrirtækjum er meiri metnaður gagnvart því að minnka urðun og þar með að ná niður kostnaði, því það er mun hagkvæmara að flokka úrgang og skila honum og í sumum tilflellum að fá greitt fyrir verðmæt efni, heldur en að láta allt í sama ílatið og urða.
Einnig eru sveitarfélögin að verða meira vakandi fyrir því að hér er málaflokkur sem hægt er að ná fram verulegum sparnaði í. En þetta er ekki einkamál sveitarfélaga og fyrirtækja, almenningur getur gert mjög mikið til að minnka það sorp sem þarf að farga. Er það gert með að auka flokkun í heimahúsum og skila í grendargáma, á gámasvæði eða til okkar hjá Sagaplast," sagði Gunnar.