Aukning í innanlandsflugi og fleiri stórar einkavélar

Sigurður Hermannsson umdæmisstjóri Isavia á Norðurlandi, segir að sumarið sem senn er á enda hafi verið alveg þokkalegt í fluginu. Það sem af er hafi orðið nokkur aukning í innanlandsfluginu á milli Akureyrar og Reykjavíkur á milli ára og þá hafi komið til bæjarins nokkrar af þessum stærri einkavélum með erlenda gesti.  

Iceland Express hefur boðið upp á beint flug milli Akureyrar og Kaupmannahafnar í sumar en síðasta ferðin á þessu sumri var farin þann 20. ágúst sl. Sigurður segir að heilt yfir hafi gengið nokkuð vel með beina flugið, sem hófst í byrjun júní, og að sætanýtingin hafi verið með ágætum.

Eins og fram hefur komið í fréttum ætlar Icelandair að bjóða upp á flug til og frá Akureyri um Keflavíkurflugvöll á ýmsa áfangastaði sína í Evrópu og Bandaríkjunum næsta sumar. Viðskiptavinir bóka flugið og innrita sig alla leið. Flogið verður allt að fjórum sinnum í viku frá 7. júní til 30. september 2012. Á Keflavíkurflugvelli er góð tenging við helstu áfangastaði Icelandair. Þá er unnið að því á vegum Markaðsstofu ferðamála á Norðurlandi að koma á beinu flugi til Akureyrar erlendis frá.

Því hafa vaknað spurningar um hvort ekki sé orðið aðkallandi að stækka flugstöðina á Akureyrarflugvelli. Sigurður segir að engar ákvarðanir liggi fyrir um stækkun flugstöðvarinnar, þó það sé vissulega eitthvað sem menn vilji sjá gerast. "Við verðum hins vegar að taka tillit til aðstæðna í þjóðfélaginu, það er ekki hægt að gera allt í einu. Það stefnir allt í að við fáum efni í nýtt flughlað úr væntanlegum Vaðlaheiðargöngum, sem fyrsta skref að nýju flughlaði og jarðvegsskiptum undir nýja flugstöð. Ég geri ráð fyrir að það komi fram í tengslum við gerð samgönguáætlunar í þinginu hvert framhald málsins verður. Það er þó ekkert sem ég veit um og við verðum að bíða og sjá hvert verður innhald samgönguáætlunarinnar," segir Sigurður.

Þann 1. desember  nk. verða gerðar þær breytingar á Akureyrarflugvelli, að Isavia tekur yfir þá þjónustu sem Slökkvilið Akureyrar hefur haft með höndum, samkvæmt þjónustusamningi við fyrirtækið. Sigurður segir að breytingin felist aðallega í að fjölga starfsmönnum í slökkviþjónustu og að starfsmenn sinni jafnframt fjölbreyttari verkefnum.

Nýjast