Aukinn innflutningur kemur harkalega niður á bændum

Ingvi Stefánsson í Teigi lét af formennsku í Svínaræktarfélagi Íslands á aðalfundi nýlega, en við starfinu tók Hörður Harðarson í Laxárdal.  Ingvi hefur gengt formennsku í félaginu síðastliðin 6 ár. Breyttir hagir ráða mestu um að Ingvi lét af formennsku í félaginu, en auk þess að reka svínabú á Teigi í Eyjafjarðarsveit hefur fjölskyldan aukið umsvifin með kaupum á svínabúi í Reykjadal.   

Þá fjölgaði í fjölskyldunni nýverið og því  miklar annir, "en þetta er líka orðin ágætur tími, 6 ár og því tímabært að hleypa nýjum manni að," segir Ingvi. Hann segir að eftirminnilegast úr sinni formennskutíð sé hversu mikill tröppugangur sé í kjötframleiðslunni, gríðarlegar sveiflur frá einum tíma til annars.  "Þetta fer upp og niður, stundum gengur vel og stundum ekki,. Ég hef líka fengið tækifæri til að kynnast mörgu góðu fólki og þetta hefur verið afskaplega lærdómsríkur tími fyrir mig. Einnig stendur upp úr að sjá hvað eftirlitsiðnaðurinn hefur vaxið mikið á síðustu árum, pappírsvinnan í kringum búreksturinn eykst stöðugt,"segir hann

Umhverfi svínabænda sem og almennt hjá kjötframleiðendum er ekki hagstætt um þessar mundir og segir Ingvi nauðsynlegt að endurskilgreina stærð kjötmarkaðar hér á landi alveg upp á nýtt með tilliti til aukins innflutnings á kjöti og vísar þar til samkeppnisyfirvalda. Innflutt kjöt vóg um 5% af heildarkjötsölu innanlands á sl. ári, en í flestum tilvikum var verið að flytja inn úrbeinað kjöt og hreina vöðva þannig að Ingvi áætlar að innflutt kjöt vegi allt að 8% í heild hvað kjötmagn varðar.  Hann bendir á að kjötmarkaðurinn sé ekki undanþegin þeim miklum hamförum sem Íslendingar hafa lent í, aukinn innflutningur á kjöti komi harkalega niður á bændum og afurðasölufyrirtækjum.  Framleiðendur glími við himinháa vexti, gríðarlegar hækkanir á flestum aðföngum, "þannig að aukinn innflutningur á kjöti er eitthvað sem við ráðum ekki við að óbreyttu," segir Ingvi en er þó bjartsýnn á gengi íslensks landbúnaðar til lengri tíma, "enda er skilningur á mikilvægi okkar framleiðslu meiri nú en verið hefur um langt skeið."

Nýjast