Þetta þýðir að tilkostnaður við hvert verk hefur að jafnaði farið lækkandi og sýnir að góður árangur hefur náðst í rekstri á liðum árum. Ný heilbrigðislög tóku gildi á haustdögum 2007. Þar er kveðið á um að Sjúkrahúsið á Akureyri verði annað meginsjúkrahúsið á Íslandi og hlutverk þess sem kennslusjúkrahús er fest í sessi. Því er jafnframt ætlað að veita sérhæfða sjúkrahúsþjónustu í heilbrigðisumdæmi sínu. Þær breytingar sem hin nýju heilbrigðislög kveða á um hvað varðar hlutverk sjúkrahússins hafa styrkt stöðu þess á öllum sviðum.
Fáein dæmi má nefna um þau skref sem stigin hafa verið á árinu til þess að gera FSA kleift að sinna lögskipuðu hlutverki sínu sem kennslusjúkrahús og annað meginsjúkrahúsið á Íslandi: Deild kennslu og vísinda tók formlega til starfa þann 1. október. Hlutverk hennar er m.a. að styðja við og efla rannsóknir og kennslu á FSA. Með tilkomu nýs og fullkomins tölvusneiðmyndatækis á myndgreiningardeild getur FSA sinnt kransæðarannsóknum. Byrjað var að bjóða upp á stærri háls-, nef og eyrnaaðgerðir sem áður voru aðeins framkvæmdar á Landspítalanum og eftir margra ára hlé var aftur farið að gera aðgerðir sem tengjast lýtalækningum. Þá má nefna gæðavottun blóðbankastarfsemi á FSA, samning milli Öldrunarheimila Akureyrar og sjúkrahússins um þjónustu sérfræðilækna í öldrunarlækningum og samning við Sjúkratryggingastofnun Íslands um fjölgun gerviliðaaðgerða, fjölgun augasteinsaðgerða og aukna þjónustu í taugasjúkdóma-, húðsjúkdóma-, innkirtla- og bæklunarlækningum. Framangreind atriði fela í sér aukna starfsemi og bætta sérfræðiþjónustu á svæðinu og munu minnka biðlista á landinu öllu. Nánari grein er gerð fyrir ýmsum þessara þátta í ársritinu.
Fjármál og rekstur
Í rekstraráætlun ársins var gengið út frá því að rekstur yrði í samræmi við fjárlög. Þegar leið á árið vantaði þó töluvert upp á þar sem gengis- og verðlagsþróun var ekki í samræmi við forsendur fjárlaga. Með efnahagshruninu í byrjun október breyttust allar forsendur enn frekar til hins verra og fyrirséð að verulegar hækkanir yrðu á rekstrarkostnaði. Í kjölfar þess var rekstraráætlun sjúkrahússins endurmetin í byrjun nóvember og stefndi þá í að rekstrarhalli gæti orðið allt að 250 milljónir króna, sem að langmestu leyti stafaði af verðlagshækkunum og veikingu krónunnar. Heilbrigðisráðuneytinu var gerð grein fyrir stöðu mála og framkvæmdastjórn ákvað að grípa til ýmiskonar aðgerða til að halda niðri kostnaði og fresta útgjöldum eftir því sem hægt var, enda engin fyrirheit gefin um viðbótarframlög.
Við afgreiðslu fjáraukalaga í desember voru svo veittar 200 milljónir króna til að mæta rekstrarvandanum. Að teknu tilliti til þess varð bókfærður tekjuafgangur í árslok 26,6 milljónir króna sem er 0,6% miðað við fjárlög. Lokaniðurstaða ársreiknings, eftir að tekið hefur verið tillit til fjárveitinga og framkvæmdakostnaðar við nýbyggingu (Suðurálmu), er jákvæð um 39,3 milljónir króna. Rekstrargjöld ársins námu 4.747 milljónum og hækkuðu um 14% miðað við fyrra ár. Fjárveiting ríkissjóðs til rekstrar á árinu var samtals 4.333 milljónir og hækkaði um 13% frá fyrra ári. Í árslok var eigið fé jákvætt um 12,4 milljónir króna.
Laun og launatengd gjöld námu samtals 3.309 milljónum og hækkuðu um 12% miðað við fyrra ár. Töluverður árangur náðist í því að draga úr yfirvinnu, einkum aukavöktum, og hækkaði yfirvinna aðeins um 6% á milli ára. Setnar stöður voru að meðaltali 481,3 og nam heildarfjárhæð greiddra launa 2.720 milljónum króna. Á árinu störfuðu samtals 930 einstaklingar á stofnuninni, 771 kona og 159 karlar. Konur voru því um 83% starfsmanna, sem er svipað hlutfall og undanfarin ár. Stærsti einstaki starfsmannahópurinn innan stofnunarinnar eru hjúkrunarfræðingar og ljósmæður, eða um 30%.
Almenn rekstrargjöld námu samtals 1.283 milljónum og hækkuðu um 18% miðað við árið á undan. Raunhækkun að teknu tilliti til kostnaðarauka vegna samninga um fjölgun gerviliðaaðgerða, 38 milljónir króna, varð um 14% en í fjárlögum hafði aðeins verið gert ráð fyrir 3,8% meðaltalshækkun. Innfluttar vörur svo sem lyf, rannsóknavörur og lækningavörur hækkuðu að mestu í hlutfalli við gengisbreytingar. Þannig hækkaði lyfjakostnaður um 41%, þar af S-merkt lyf um 60%, en þar var einnig um töluverða magnaukningu að ræða. Lyfjakostnaður nam samtals 234 milljónum og vörur til lækninga og hjúkrunar námu samtals 202 milljónum. Frávik frá áætlun í árslok voru um 170 milljónir eða 15,3%.
Starfsemi
Sjúklingar (dvalir) voru samtals 8.639 á árinu. Þar af voru 5.607 á legudeildum. Aukning á milli ára var 2,8%. Legudagar voru samtals 41.840 og fækkaði um 5,6% frá árinu áður. Að teknu tilliti til fækkunar á legudögum í hjúkrunarrýmum (Sel) er fækkun legudaga aðeins 2,2%. Skurðaðgerðir voru 3.555 og fækkaði um rúm 20% frá árinu á undan. Ástæður fækkunarinnar má fyrst og fremst rekja til þess að hafinn var rekstur á skurðstofum utan spítalans á vegum sjálfstætt starfandi sérfræðinga. Meðallegutími var 6,3 dagar og meðalnýting rýma var 70,9%. Fæðingum fækkaði úr 450 í 434. Komur á slysadeild voru samtals 12.463 og fjölgaði um 7,6%. Einingum vegna ferliverka (göngudeildarþjónusta) fjölgaði úr 866 þúsund í 867 þúsund. Almennum rannsóknum fjölgaði um 1,5%, myndgreiningum fjölgaði um 7,5% og speglunum um 10%.
Framkvæmdir og tækjakaup
Helstu framkvæmdir sem flokkast undir meiriháttar viðhald á árinu voru breytingar á slysa- og bráðamóttöku, myndgreiningardeild og fyrrum húsnæði skrifstofu og meinafræðideildar. Þessar breytingar kostuðu alls 27,2 milljónir króna. Á endurhæfingardeild og öldrunarlækningadeild á Kristnesspítala var framkvæmt fyrir samtals 43,2 milljónir og náðist að endurbyggja hluta að legudeildarrými fyrir það fé. Sérstök fjárveiting að upphæð 40 milljónir fékkst til þeirra framkvæmda. Samtals var framkvæmt fyrir rúma 71 milljón króna á þessum fjárlagalið. Með þessum framkvæmdum var vinnuaðstaða starfsfólks og aðstaða fyrir sjúklinga stórbætt og er það vel.
Samtals voru keypt stærri tæki og búnaður fyrir 67 milljónir króna og minni tæki fyrir 17 milljónir. Stærsti einstaki liður vegna tækja og búnaðar á árinu var leiga á segulómtæki, 43,1 milljón króna. Þá voru gerðir rekstrarleigusamningar um nýtt sneiðmyndatæki fyrir myndgreiningadeild og skyggnimagnara fyrir skurðdeild en andvirði þessara tveggja tækja var rúmar 200 milljónir króna
Gjafir og framlög velunnara spítalans hafa haft gífurlega þýðingu fyrir vöxt hans og viðgang í gegnum tíðina. Á árinu bárust Gjafasjóði samtals 82 milljónir í gjafaframlög sem öllum verður varið til kaupa á tækjabúnaði. Stærsta einstaka framlagið kom frá Góðtemplarareglunni á Akureyri sem gaf 50 milljónir króna til kaupa á tækjum og búnaði til greiningar og meðferðar hjartasjúkdóma. Fullyrða má að þar hafi verið um að ræða stærstu einstöku gjöf sem FSA hefur fengið frá upphafi. Gerð hefur verið samantekt á gjöfum og framlögum til Gjafasjóðs allt frá árinu 1986. Þar kemur fram að framlög á þessu árabili nema samtals um 360 milljónum króna á verðlagi ársins 2008. Fyrir allt þetta vilja stjórnendur og starfsfólk færa hlutaðeigandi alúðarþakkir.