Það sem af er þessu ári hefur mikið álag verið á starfsfólki Sjúkrahússins á Akureyri og mikil aukning í starfseminni. Ég hef ekki áður séð meiri aukningu í starfsemi á milli ára en núna, segir Þorvaldur Ingvarsson forstjóri. Sem dæmi má nefna að inniliggjandi sjúklingum fjölagði í janúar um 19% miðað við janúar í fyrra, innlögnum á lyfjadeild fjölgaði um 24%, handlækningadeild um 15% og geðdeild um 20%. Þá fjölgaði komum á dagdeild um 47% og lyfjablöndunum í apóteki um 55%. Að auki hefur komum á bráðamóttöku fjölgað um 16% en skurðaðgerðir standa í stað. Mér virðist þetta vera að mestu aukning í bráðastarfsemi og líklegt er að nú sé samdráttur á heilbrigðisstofnunum hér í kring farinn að koma fram í starfseminni hjá okkur, segir Þorvaldur. Hann hefur upplýst velferðarráðuneyið um stöðuna og segir að grannt verði fylgst með þróun mála á næstunni.
Starfemi hjá okkur er í hámarki og það er mikið álag á öllum deildum, starfsemisaukningin var um 15-20% í janúar en heldur dró úr í febrúar. Það er engin ein skýring á þessu því bæði bráða- og valstarfsemi hefur aukist, segir Þorvaldur. Ekki er að hans sögn að sjá að aukning hafi orðið á aðsókn sjúklinga frá Þingeyjarsýslum eða úr Skagafirði, en leita þarf mörg ár aftur í tímann til að sjá svo mikla sveiflu í starfseminni. Ef til vill er þetta merki um breytingar í þjóðfélaginu, segir hann en það þurfi að greina betur og eins að skoða hvernig starfsfólk geti brugðist við til að að gera vinnuumhverfið betra.
Þorvaldur segir of snemmt að segja fyrir um nú hvort þetta ástand hafi áhrif á starfsemisáætlun ársins eða fjárhag Sjúkrahússins. Það skýrist betur þegar líður á árið, en óhjákvæmilega muni það hafa áhrif ef fram heldur sem horfir. Hann segir að starfsfólk leggi sig fram og eigi þakkir skildar.