Aukin aðsókn á Amtsbókasafnið frá því í haust

"Við urðum vör við það í haust að fólki fór að fjölga hér hjá okkur," segir Hólmkell Hreinsson amtsbókavörður á Amtsbókasafninu á Akureyri.  Fyrri hluta árs stóð aðsókn á safnið í stað eða dróst saman eftir mánuðum, en þrjá síðustu mánuði liðins árs varð aukning í aðsókn og útlánum.  

Hólmkell segir að aukningin hafi numið 8% í október samanborið við sama mánuð árið á undan, 2% í nóvember og 17% í desember.  Í nýliðnum janúarmánuði komu 10.611 gestir á Amtsbókasafnið, sem gerir að jafnaði 451 heimsókn á dag þegar opið er.  Um er að ræða 7% aukningu miðað við janúarmánuð í fyrra. Bróðurpartur útlána er í formi prentaðs máls, bóka eða tímarita, eða um 87%, en að sögn Hólmkels er aukning í  útlánum á kvikmyndum og eins hljóðbókum.  Hann segir marga nýta sér hljóðbækur, t.d. á gönguferðum, í leikfimi eða við vinnu sína, "en það mætti alveg vera meira úrval í boði, það er ekki  gefið mikið út af hljóðbókum," segir hann.

Hólmkell bendir á að þjónusta safnsins sé að mestu leyti ókeypis og hafi forsvarsmenn m.a. vakið athygli á fjölbreyttri starfsemi sinni hjá Vinnumálastofnun í ljósi aukins atvinnuleysis í bænum.  Þá nefndi hann einnig að öllum innheimtuaðgerðum á vegum safnsins hefði verið frestað í ljósi efnahagsástandsins, en eitthvað er um að fólk skili ekki á réttum tíma og safni sektum. 

Nýjast