Samningur milli Sjúkrahússins á Akureyri og Öryggismiðstöðvarinnar um almenna öryggisgæslu og uppsetningu aðgangsstýrikerfis, öryggismyndavéla og neyðarhnappa á SAk var undirritaður í vikunni. Er þetta einn liðurinn í alþjóðlegri gæðavottun SAk og stuðlar að auknu öryggi starfsmanna, sjúklinga og annarra sem fara um sjúkrahúsið, er segir í tilkynningu frá SAk. Stærsti þátturinn í samningnum er uppsetning aðgangsstýrikerfis sem er viðamikið verk sem gefur aukna möguleika á að stjórna umferð um sjúkrahúsið á öllum tímum sólarhringsins. Einnig verða öryggis- og eftirlitsmyndavélakerfi sjúkrahússins uppfærð, sem og neyðarhnappar. Frá og með 1. júlí sjá starfsmenn Öryggismiðstöðvarinnar um þá öryggisvörslu sem Securitas hefur hingað til sinnt á sjúkrahúsinu.
-Vikudagur, 28. apríl