Aukasýningar á söngleiknum Vínlandi í Freyvangi

Sýning Freyvangsleikhússins á söngleiknum Vínland eftir Helga Þórsson var valin athyglisverðasta áhugaleiksýning leikársins 2008-2009 af dómnefnd Þjóðleikhússins, eins og fram hefur komið. Þetta er í sextánda sinn sem athyglisverðasta áhugaleiksýning er valin en Vínland verður sýnt í Þjóðleikhúsinu 11. júní nk. Af því tilefni verða 2 aukasýningar í Freyvangi 4. og 5. júní nk. kl. 20:00 báða dagana.  

Á þessum sýningum, sem og í Þjóðleikhúsinu, munu Helgi og hljóðfæraleikararnir leika undir ásamt Ingólfi Jóhannssyni. Í umsögn dómnefndar Þjóðleikhússins segir:

"Það er hreint út sagt frábær hugmynd hjá Helga Þórssyni og Freyvangsleikhúsinu að setja á svið rokksöngleik byggðan á víkinga-arfleifð okkar Íslendinga. Helgi Þórsson er aðalhugmyndasmiður þessarar sýningar, sem höfundur tónlistar, texta og útlits sýningarinnar, en er dyggilega studdur af kraftmiklum hópi leikara, tónlistarfólks og allra annarra sem til þarf að gera svona stórsýningu að veruleika. Úrvinnslan á menningararfi okkar var mátulega hátíðleg, og á köflum bráðsniðug. Stór hópur leikara kemur að sýningunni, og nýtur sín vel í söng og leik, og eru sum tónlistaratriðanna afar áhrifamikil. Er þar þáttur tónlistarstjórans, Ingólfs Jóhannssonar, ekki lítill, en tónlistarflutningur er í höndum hljómsveitarinnar Helgi og hljóðfæraleikararnir. Mikið er lagt í leikmynd og búninga og þar er ólíkum stílum stefnt saman á djarfan hátt, svo hetjur víkingatímans birtast okkur eins og þúsund ára gamlar rokkstjörnur. Frumleiki, hugmyndaauðgi og kraftur einkenna þessa skemmtilegu sýningu."

Nýjast