Auglýst eftir þremur framkvæmdastjórum við Sjúkrahúsið á Akureyri

Sjúkrahúsið á Akureyri hefur kynnt nýja framtíðarsýn og stefnu með gildin; öryggi, samvinnu og framsækni, að leiðarljósi. Til þess að ná þeim markmiðum sem sett eru í framtíðarsýninni hefur nýtt skipurit verið gert. Starfsemi sjúkrahússins verður skipt upp í þrjú klínísk svið auk sviðs fjármála og verður einn framkvæmdastjóri yfir hverju þeirra. Um helgina var auglýst eftir framkvæmdastjóra hjúkrunar, framkvæmdastjóra lækninga og framkvæmdastjóra fyrir eitt af þremur klínísku sviðum í nýju skipuriti sjúkrahússins.
Framkvæmdastjóri hjúkrunar mun jafnframt gegna stöðu framkvæmdastjóra eins klínísku sviðanna og framkvæmdastjóri lækninga mun jafnframt gegna stöðu framkvæmdastjóra eins klínísku sviðanna. Nýrra framkvæmdastjóra bíða krefjandi verkefni við mótun innra skipulags á sviðunum og framkvæmd nýrrar stefnu sjúkrahússins með hagsmuni sjúklinga í fyrirrúmi. Umsóknarfrestur er til 30. nóvember nk. en ráðið verður í stöðurnar frá 1. febrúar 2012 til 5 ára.