Atvinnurekendur á Akureyri álykta um Reykjavíkurflugvöll

Dagur B. Eggertsson á fundinum á Akureyri í dag/mynd Karl Eskil
Dagur B. Eggertsson á fundinum á Akureyri í dag/mynd Karl Eskil

Dagur B. Eggertsson, borgarfulltrúi og Njáll Trausti Friðbertsson, flugumferðarstjóri fóru yfir sjónarmið Reykjavíkurborgar og samtakanna Hjartað í Vatnsmýrinni varðandi framtíð Reykjavíkurflugvallar á fundi sem Samtök Atvinnurekenda á Akureyri efndu til í dag. Stjórn Samtaka atvinnurekenda á Akureyri hefur sent frá sér eftirfarandi ályktun:

Stjórn Samtaka atvinnurekenda á Akureyri hvetur einróma til þess að stjórnvöld tryggi að Reykjavíkurflugvöllur fái áfram að starfa á núverandi stað innan borgarmarka Reykjavíkur þar til nýtt og viðunandi flugvallarstæði hefur verið fundið við eða í Reykjavík.  Flugvöllurinn skiptir, eins og öllum er ljóst, miklu máli varðandi öryggi íbúa landsins sem þurfa á bráðahjálp að halda vegna veikinda eða slysa sem verða fjarri Reykjavík.  Einnig gerir hann starfsmönnum fyrirtækja og stofnanna á landsbyggðinni kleift að sækja þjónustu stjórnsýslunnar sem nánast öll er staðsett í Reykjavík með mun lægri tilkostnaði en ef hann væri annars staðar. Staðsetning vallarins í dag styrkir þannig öflugri byggð utan Reykjavíkur og það er hagur allra landsmanna.

„Það fara 400 – 450 þúsund farþegar um Reykjavíkurflugvöll á ári og fyrir séð er að innanlandsflug muni raskast verulega verði innanlandsflug flutt til Keflavíkur. Það er mikilvægt að framtíð Vatnsmýrarinnar verði mótuð með hag allra landsmanna að leiðarljósi. Uppbygging margra fyrirtækja á Akureyri hefur verið og verður háð greiðu aðgengi að höfuðstöðvum stjórnsýslu Íslands og viðskiptavinum þeirra í Reykjavík. Jafnframt eru ýmis áform um atvinnuuppbygginu á landsbyggðinni þar sem greiðar samgögnur til og frá Reykjavík skipta miklu máli.„  segir Þórleifur Stefán Björnsson formaður Samtaka atvinnurekenda á Akureyri.

Nýjast