Atvinnuleysi fer vaxandi og samdráttur í dagvinnu

Engar hópuppsagnir voru tilkynntar til Einingar-Iðju um nýliðin mánaðamót, en atvinnuleysi fer mjög vaxandi og eru nú um 150 félagsmenn í Einingu-Iðju án atvinnu nú.  Björn Snæbjörnsson formaður félagsins segir að atvinnurekendur virðist hafa hug á að nýta sér ný lög sem gerir kleift að hafa fólk í hlutastarfi á móti atvinnuleysisbótum.   

"Það hafa einhverjir nýtt sér þennan möguleika og sjálfsagt verður meira um slíkt á næstu mánuðum," segir hann.  Versti kosturinn sé að segja upp fólki, "þannig að það eru margir að skoða þessa lausn í því óvissuástandi sem ríkir núna," segir  Björn.  Mjög hefur dregið úr yfirvinnu að undanförnu en Björn segir að ekki sé um að ræða norðan heiða að fólk lækki í launum í miklum mæli enda sé minna um það en á höfuðborgarsvæðinu að greidd séu markaðslaun.  "Hér er fólk almennt á taxtalaunum," segir Björn.

Úlfhildur Rögnvaldsdóttir formaður Félags verslunar- og skrifstofufólks segir einnig áberandi að dagvinnutími starfsfólks í félaginu hafi verið skertur og allri yfirvinnu verið sagt upp.  "Fólk er í þó nokkrum mæli að taka á sig minna vinnuframlag en áður," segir Úlfhildur.  Hún segir félagsmenn almennt hrædda við ástandið, enda mikil óvissa framundan, "við kvíðum því hvernig ástandið verður hér þegar aðeins verður komið fram á næsta ár, í janúar febrúar, en þá munu þær uppsagnir sem þegar hefur verið tilkynnt um koma til framkvæmda."

Nýjast