Atvinnu- og nýsköpunarhelgi haldin á Akureyri í annað sinn

Atvinnu- og nýsköpunarhelgi verður haldin á Akureyri um helgina. Nú fer hver að verða síðastur til að skrá sig til þátttöku því viðburðurinn verður settur  í Háskólanum á Akureyri kl. 18.00 í dag. Í framhaldinu verður svo unnið af krafti fram á sunnudag. Enginn kostnaður fylgir þátttöku. Þetta er í annað sinn sem slík vinnuhelgi er haldin á Akureyri en á síðasta ári voru þátttakendur rúmlega 70 og 27 viðskiptahugmyndir kynntar. Gríðarlegur undirbúningur hefur staðið yfir og er Sigurður Guðmundsson, annar af verkefnastjórum Atvinnu- og nýsköpunarhelgarinnar, bjartsýnn á að vel takist til.  Sigurður segir að þátttakan sé mjög góð og að svipaður fjöldi fólks hafi skráð sig til leiks og á síðasta ári. “Þetta verður mjög góð helgi og enn betri en í fyrra. Við höfum fengið mun fleiri að borðinu, háskólinn kemur frekar að málum, bæði með leiðbeinendur og fleira, Impra verður með fullrúa á staðnum, sem og Landsbankinn. Þannig að við getum ekki beðið með að hefja vinnuna. Þá verður mun meiri eftirfylgni núna og í framhaldinu verður í raun önnur keppni, sem kynnt verður um helgina,” segir Sigurður.

Meginmarkmið helgarinnar er að efla frumkvöðlastarf og þróun nýrra hugmynda ásamt því að ýta undir atvinnusköpun á hverju svæði fyrir sig. Atvinnu- og nýsköpunarhelgin er opin fyrir alla, fyrir þá sem eru með viðskiptahugmynd og þá sem hafa áhuga á að leggja sitt að mörkum við að fullmóta viðskiptahugmynd annarra. Þátttakendur njóta leiðsagnar og ráðlegginga frá sérfróðum aðilum og fá tækifæri til að hlusta á reynda fyrirlesara miðla þekkingu sinni varðandi framgöngu hugmynda og stofnun fyrirtækja. Verðlaun og viðurkenningar verða veittar fyrir bestu hugmyndirnar í nokkrum flokkum, alls nema heildarverðlaun helgarinnar 1.500.000 króna. Í framhaldi geta þátttakendur haldið áfram að þróa sínar viðskiptahugmyndir og fengið til þess ráðgjöf með það að markmiði að sem flestar viðskiptahugmyndir verði að veruleika. Að helginni standa Innovit, Landsbankinn og Tækifæri fjárfestingarsjóður í samstarfi við Akureyrarbæ. Eins styðja fjölmörg fyrirtæki af svæðinu rausnarlega við viðburðinn.  Skráning fer fram á www.anh.is. Þar er einnig hægt að nálgast dagskrá og nánari upplýsingar um Atvinnu- og nýsköpunarhelgina.

 

Nýjast