Átthagafélag Torgara á Húsavík boðar til Hundadagagleði

Átthagafélag Torgara á Húsavík hefur ákveðið að boða til Hundadagagleði helgina 19. til 20. ágúst 2011. Þingsetning verður á Rauðatorginu föstudaginn 19. ágúst kl. 20:00. Um kvöldið fer fram Sagnaþing þar sem rifjaðar verða upp gamlar og sannar sögur af minnistæðum Torgurum og öðrum eftirminnilegum Húsvíkingum. Auk þess verður boðið upp á ljúfa tónlist að hætti Torgara.  

Hátíðinni verður svo framhaldið á laugardeginum með veglegri dagskrá sem er meðfylgjandi þessari tilkynningu. Búist er við miklu fjölmenni á mælikvarða Torgara.

Hvað er Rauðatorgið?

Um miðbik fimmta áratugar síðustu aldar voru byggðir verkamannabústaðir sunnan við Búðarána sem rennur í gegnum Húsavík. Þetta voru öll hús sem enn standa við Iðavelli og Brávelli og að hluta til við Sólvelli. Allmargir þeirra frumbyggja sem þarna settust að þóttu róttækir vel og var hverfið kallað Rauðatorgið. Nafnið kemur að sjálfsögðu frá samnefndu torgi austur í Moskvu, en þá var að sumra manna áliti annars konar stjórnarfar en nú ríkir í því víðfeðma landi Rússlandi. Rauðatorgið í dag afmarkast af Búðará að norðan, Reykjaheiði að austan, norðan Fossvalla að sunnan og af afdreginni línu 9,5 metrum frá Garðarsbraut að vestan. Torgarar eru allir frumbyggjar svæðisins, börn þeirra og fjölskyldur og nýbyggjar sem dvalið hafa í fimm ár eða lengur á Torginu teljast með full Torgararéttindi. Þeir sem dvalið hafa þar skemur, nú eða áður, eru með takmörkuð réttindi, sem nægja þó til málfrelsis og tillöguréttar í öllum málefnum sem snerta Torgarasamfélagið.

Nýjast