Átta marka sigur Akureyringa

Oddur Gretarsson var öflugur í kvöld og skoraði 11 mörk. Mynd: Þórir Tryggvason.
Oddur Gretarsson var öflugur í kvöld og skoraði 11 mörk. Mynd: Þórir Tryggvason.

Akureyri vann í kvöld sinn annan leik í röð í N1-deild karla í handknattleik er liðið hafði betur gegn Aftureldingu, 34-26, í Höllinni á Akureyri í kvöld. Norðanmenn höfðu undirtökin nánast allan leikinn og náðu mest ellefu marka forystu í seinni hálfleik. Afturelding sýndi hins vegar mikinn karakter með að koma til baka og minnka muninn í fjögur mörk en komust ekki nær og Akureyringar fögnuðu mikilvægum tveimur stigum.

Akureyri byrjaði leikinn vel og komst í 4-0. Afturelding komst ekki á blað fyrr en tæplega átta mínútur voru liðnar af leiknum. Sóknarleikur Mosfellinga var slakur og skotin rötuðu oft ekki á rammann. Afturelding tók hins vegar við sér þegar leið á og skoraði þrjú mörk í röð og minnkaði muninn í 4-3 og náði að jafna í 5-5. Jafnt var á tölum næstu mínútur en Akureyringar náðu þriggja marka forystu á ný, 12-9, þegar tuttugu mínútur voru liðnar af leiknum. Norðanmenn bættu við forystuna fyrir leikhlé og leiddu með fjórum mörkum, 17-13, í hálfleik.

Oddur Gretarsson var allt í öllu í sóknarleik Akureyrarar í fyrri hálfleik, skoraði 8 mörk í öllum regnboganslitum. Sveinbjörn Pétursson sýndi takta á kölfum í markinu og varði 8 skot. Hjá Aftureldingu dreifðist markaskorið mikið og markvörðurinn Hafþór Einarsson hefur oft fundið sig sig betur gegn sínum gömlu félögum með 6 skot varin.

Heimamenn skoruðu fyrstu tvö mörkin í seinni hálfleik og náðu sex marka forystu, 19-13. Akureyri hélt áfram að auka við forystuna og þegar sjö mínutur voru liðnar af seinni hálfleik var staðan 22-14 og ljóst að róðurinn yrði þungur fyrir gestina. Áfram hélt vandræðagangur Aftureldingar í sókninni og heimamenn gengu á lagið með hraðaupphlaupum og juku muninn í níu mörk, 23-14. Reynir Þór Reynisson þjálfari Aftureldingar fékk þá nóg og tók leiklé, þegar tíu mínútur voru liðnar af seinni hálfleik.

Akureyringar héldu hins vegar áfram að bæta í forystuna sem var orðinn 11 mörk, 25-14, og fátt sem virtist koma í veg fyrir stóran norðlenskan sigur. Mosfellingar eru hins vegar ekki þekktir fyrir að gefast upp. Davíð Svansson kom í markið og varði fjögur skot á stuttum tíma og Afturelding minnkaði muninn í kjölfarið niður í sjö mark, 25-18.

Davíð hélt áfram að verja og Mosfellingar söxuðu jafnt og þétt á forskotið sem var komið niður í sex mörk, 28-22, þegar tíu mínútur lifðu leiks. Munurinn var svo orðinn aðeins í fjögur mörk, 30-26, og ennþá þrjár mínútur eftir. Akureyringar hleyptu þeim hins vegar ekki nær. Mosfellingar flýttu sér of mikið í sóknarleiknum og norðanmenn tóku góða rispu í restina og fögnuðu að lokum átta marka sigri, 34-26. Sanngjarn sigur og Akureyringar fara upp í sjö stig en Afturelding hefur áfram fjögur stig.

Mörk Akureyrar: Oddur Gretarsson 11, Bjarni Fritzson 11 (3), Guðmundur Hólmar Helgason 4, Bergvin Gíslason 3, Geir Guðmundsson 2, Heimir Örn Árnason 2, Heiðar Þór Aðalsteinsson 1
Varin skot: Sveinbjörn Pétursson 18.

Mörk Aftureldingar: Sverrir Hermannsson 6, Þorlákur Sigurjónsson 5, Jóhann Jóhannsson 4 (1), Þrándur Gíslason 4,  Böðvar Páll Ásgeirsson 2, Chris Mcdermont 1, Daníel Jónsson 1, Mark Hawkins 1, Hrannar Guðmundsson 1.

Áhorfendur: 648

Nýjast