Átta leikmenn Þórs framlengdu samning sinn

Átta leikmenn meistaraflokks Þórs í knattspyrnu, framlengdu í kvöld samning sinn við félagið um eitt ár. Allir áttu leikmennirnir eitt ár eftir af samningi sínum og þeir munu því leika með Þór næstu tvö árin í það minnsta. Leikmennirnir átta eru; Sveinn Elías Jónsson, Jóhann Helgi Hannesson, Ármann Pétur Ævarsson, Ingi Freyr Hilmarsson, Baldvin Ólafsson, Sigurður Marinó Kristjánsson, Guðmundur Ragnar Vignisson og Halldór Orri Hjaltaon.
Páll Viðar Gíslason þjálfari Þórs var að vonum ánægður með þessa niðurstöðu. Það fylgja þessari ákvörðun leikmannanna skýr skilaboð til Þórsara og þeir ætla að leggja sitt af mörkum til þess að koma Þór í efstu deild á ný, strax á næsta ári. Við ætlum ekkert að leggja árar í bát þótt liðið hafi fallið og leikmennirnir ætla að taka þátt í því að leiðrétta það sem fór úrskeiðis. Þrátt fyrir að liðið hafi fallið, þá komust við í úrslit bikarkeppninnar og unnum okkur rétt til að leika í Evrópukeppninni á næsta ári. Það eru því vissulega spennandi tímar framundan, sagði Páll.