Hekla, samband norðlenskra karlakóra, stendur fyrir mótinu, sem eiga sér ríflega sjö áratuga sögu. Þátttakendur í Heklumóti 2008 að þessu sinni eru: Karlakór Akureyrar-Geysir, Karlakór Bólstaðarhlíðarhrepps, Karlakór Dalvíkur, Karlakórinn Drífandi á Fljótsdalshéraði, Karlakórinn Ernir á norðanverðum Vestfjörðum, Karlakór Eyjafjarðar, Karlakórinn Heimir í Skagafirði og gestgjafarnir að þessu sinni, Karlakórinn Hreimur á Húsavík.
Undirbúningsnefnd Heklumóts 2008 fékk Guðmund Óla Gunnarsson, tónlistarkennara og stjórnanda, til að semja nýtt lag fyrir þetta mót. Verkið ber heitið; "Þú, sem eldinn átt í hjarta" og er samið við texta Davíðs Stefánssonar. Þarna verður því um frumflutning að ræða á nýju íslensku tónverki, sem samið er fyrir karlakóra.
Heklumót hafa verið haldin frá því árið 1935, mótin eru haldin fjórða hvert ár og er þetta hið sautjánda í röðinni. Á Heklumóti 2008 syngur hver kór fyrir sig þrjú lög og síðan syngja allir kórarnir saman fimm lög, sérstaklega valin fyrir þetta tækifæri. Þar skiptast söngstjórar kóranna á að stjórna. Heklumót er því sannkölluð söngveisla sem enginn unnandi kórsöngs má láta fram hjá sér fara.